Ítalskur mánuður og Fifteen-kvöld á Kolabrautinni

Það er mikið um að vera á Kolabrautinni í Hörpu nú í nóvember. Matseðillinn hefur tekið á sig töluvert aðra mynd en venjulega og þar er fram til mánaðamóta einungis að finna gamla klassíkera frá Primavera en þau Leifur og Jónína sem reka Kolabrautina ráku Primavera um árabil. Þá verður haldinn stór og mikill kvöldverður til styrktar ungum skjólstæðingum SÁÁ laugardagkvöldið 19. janúar þar sem teymi frá Fifteen, veitingahúsi Jamie Oliver í London, mun sjá um eldamennskuna.

Leifur Kolbeinsson segir hugmyndina að kvöldverðinum hafa kviknað síðastliðið haust er Andrew Parkinson á Fifteen hafði samband  spurði hvort þeir ættu ekki að gera eitthvað saman en þeir Leifur hafa áður átt gott samstarf. „Ég vildi gera eitthvað öðruvísi og brjóta þetta svolítið upp, ekki bara vera með  hefðbundin kvöld með gestakokki. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér hugmyndinni á bak við Fifteen og hvernig við gætum nýtt styrk Kolabrautinnar. Að lokum ákváðum við að efna til góðgerðarkvöldverðar og það munu koma þrír matreiðslumenn og vínþjónn frá Fifteen til okkar í tilefni kvöldsins.“

Kvöldverðurinn, sem verður í ítölskum anda,  mun kosta 15 þúsund krónur á mann með víni og mun hver einasta króna renna til SÁÁ og vera eyrnarmerkt ungum skjólstæðingum. Þeir sem panta borð á kvöldverðinum fá sendan greiðsluseðil sem þarf að greiða í síðasta lagi á fimmtudeginum fyrir kvöldverðinn og rennur greiðslan beint inn á reikning SÁÁ. Að auki verður haldið „þögult“ uppboð um kvöldið á verki eftir Birgi Andrésson en það er gallerí í8 og fjölskylda Birgis sem leggur til verkið.

Þegar hafa 60 bókað sæti í kvöldverðinum en Leifur segir draumin vera að fá 150 manns í kvöldverðinn. „Ég hef allt frá því að við hófum hér rekstur frekar vilja styrkja fá verkefni vel en mörg með smáupphæðum og ég vona að þetta geti skilið eftir sig eitthvað sem skiptir raunverulegu máli. Okkur langar að koma af stað verkefni sem hefur að markmiði að koma þessum ungmennum aftur út í lífið,“ segir Leifur.

Auk Kolabrautarinnar sem leggur til alla sína aðstöðu og starfsfólk þetta laugardagskvöld og sér um að fá hingað teymið frá Fifteen leggja flestir af helstu birgjum Kolabrautarinnar til hráefni og annað í kvöldverðinn auk einstaklinga, en það eru Harpa, RJC, Globus, Ölgerðin, Ekran, Bananar, Frú Lauga, Sjófiskur, Andri Snær Magnússon og Þórir Baldursson.

Stemmningin er að öðru leyti ítölsk í Kolabrautinni í allan janúar og hefur rykinu verið dustað af mörgum af vinsælustu réttunum er bornir voru fram á Primavera í gegnum árin. Leifur segir að bæði hafi þau Jónina saknað Primavera auk þess sem að þau hafi verið undir miklum þrýstingi frá gömlum Prima-gestum að gera eitthvað í þessa veru. Allir réttir á seðlinum eru Primavera-réttir og í hádeginu er í boði þriggja rétta seðill á 3.500 krónur líkt og á Primavera og fjögurra rétta á kvöldin. „Það hefur verið kallað á þetta og við erum að svara því kalli,“ segir Leifur. Það er greinilegt að þetta hefur fallið í kramið því að hádegið í síðustu viku var eitt annasamasta hádegi í sögu Kolabrautarinnar.

Á myndinni má sjá veitingasal Fifteen í London.

Deila.