Parmesankjúklingur

Ofnbakaður kjúklingur er alltaf vinsæll. Þessi parmesankjúklingur krefst þess þar að auki ekki að maður standi yfir pottunum lengi.

  • 600 g beinlaus kjúklingur, bringur, læri eða lundir, Skorið í strimla
  • 2 laukar, saxaðir
  • 3 msk fínsaxaður hvítlaukur
  • 2,5 dl rjómi
  • 150 g Parmesan, rifinn
  • 2-3 tsk krydd, t.d. timjan/rósmarín/salvía
  • ein lúka söxuð basillauf
  • smjör og olía
  • salt og pipar

Hitið smjör og olíu saman á pönnu og mýkið laukinn og hvítlaukinn þar til að hann fer að taka á sig lit. Það er gott að byrja á lauknum og bæta hvítlauknum við eftir 2-3 mínútur. Þegar laukurinn er orðinn vel gullinn er hann tekinn af pönnunni og geymdur.

Bætið smá olíu á pönnuna og steikið kjúklingastrimlana. Saltið, piprið og kryddið með kryddum að ykkar smekk. Þegar kjúklingurinn er að verða tilbúinn er um 1 dl af vatni bætt út á pönnuna til að hreinsa upp skófarnar (ennþá betra er að nota hvítvín ef þið eigið það til).

Setjið kjúklinginn ásamt vökvanum úr pönnunni í ofnfast form og laukinn ofan á. Blandið saman rjóma og parmesan og hellið yfir.

Setjið í 200 gráðu heitan ofn og eldið í um 35-40 mínútur. Sáldrið söxuðu basillaufunum yfir áður en borið er fram með hrísgrjónum og salati.

Hér er gott að hafa Chardonnay-vín með t.d. frá Gérard Bertrand.

Fjölmargar fleiri kjúklingauppskriftir má svo sjá hér.

Deila.