Hallveig bloggar: konungur hvíta fisksins í beikonfaðmlagi. Verður það eitthvað betra?

Í síðasta pistli minntist ég á að vera með beikonvafinn skötusel á prjónunum. Í kvöld urðu prjónarnir að veruleika, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, þar sem fiskurinn er jú þræddur upp á prjón!

skotuselur i poka

 • Þetta var fyrsta tilraun mín og grillmeistarans með þennan fræga rétt en það er skemmst frá að segja að hann verður án efa fastagestur á matseðlinum héðan í frá. Fiskurinn var ekkert minna en guðdómlega góður! Enda segir máltækið: beikon gerir allt betra (eða það ætti allavega að vera til máltæki sem segði það.. hahaha! )

Með fiskinum bar ég fram salsa úr grilluðum paprikum með furuhnetum og basiliku (ósköp bragðgóða uppskrift frá henni Nönnu okkar Rögnvaldar.. gæti borðað hana eina og sér sem kvöldmat), grillaðan aspas (sem gleymdist að setja á diskinn fyrir myndatöku), ofnsteikta kartöflubáta og tartar sósu. Næst mun ég hafa einfaldari sósu með, tartar sósan var of flókin með fiskinum en ég set samt uppskriftina hér með þar sem hún smellpassaði með kartöflunum og var einstaklega bragðgóð ein og sér. Restin af sósunni verður með rasp-steiktu ýsunni á þriðjudaginn og á eftir að syngja þar sinn fagra sósusöng.

Hér kemur semsagt fiskurinn:

fyrir 3 matgóða eins og okkur eða 4 matgranna:

 • 600 grömm skötuselur, snyrt flök
 • 6 sneiðar gott beikon (mæli með beikoni frá pylsumeistaranum)
 • 1 góð grein ferskt rósmarín
 • 2 góðar greinar ferskt timian
 • 4 blöð af ferskri salvíu
 • 3 msk góð ólífuolía
 • maldon salt
 • nýmalaður pipar

 

saxið kryddjurtirnar smátt og blandið saman við olíuna, berið á fiskinn og setjið til hliðar í hálftíma hið minnsta. Rétt áður en kemur að því að grilla fiskinn, vefjið þá beikonsneiðunum þétt upp að fiskinum þannig að það skarist aðeins. Það passa ca 3 sneiðar af beikoni á hvora 300 gr fiskisteikina. Þræðið svo grillpinna í gegn um beikonið til að festa, passið að ná öllum endum af beikoninu upp á pinnann.

Grillið fiskinn í 8-10 mínútur yfir meðalheitum kolum og snúið reglulega, beikonið á að verða meðalstökkt en ekki brunnið.

 

Tartarsósan:

 • 50 gr sýrður rjómi
 • 3 msk mæjónes
 • 1 stór pikkluð gúrka, skorin mjög smátt
 • 2 tsk kapers, saxað smátt
 • 2 stk vorlaukar smátt saxaðir
 • 1 tsk hvítvín (mætti vera sítrónusafi)
 • nýmalaður pipar
 • salt ef þarf (ég þurfti ekki að bæta við salti)
 • nokkur korn af sykri

 

blandið öllu saman. Best er að gera sósuna nokkrum tímum áður en hún er borin fram,  til að láta hana brjóta sig, þó má alveg bera hana fram strax.

 

Með fisknum drukkum við Drostdy-Hof Cabernet Sauvignon frá 2009 sem passaði ljómandi vel með. Beikonið þolir alveg að það sé svolítið bragð af víninu.

Gleðilegt sumar!

 

 

Deila.