Þúsundeyjasósa – Thousand Island Dressing

Þúsundeyjasósan er með vinsælustu köldu sósunum, ekki síst vestanhafs. Uppruni hennar er óljós en fyrstu heimildir um hana eru frá byrjun síðustu aldar. Sumir telja að hún eigi uppruna sinn að rekja til Þúsundeyja, sem er eyjaklasi á mörkum Bandaríkjanna og Kanada, aðrir vilja kenna hana við Waldorf-Astoria-hótelið í New York. Ein sagan er að fyrrum bryti á bát á Þúsundeyjum hafi síðar starfað á Astoria. Önnur að eigandi hótelsins hafi kynnst sósunni á ferð um Þúsundeyjar.

Hvað sem því líður þá hefur hún notið mikilla og stöðugra vinsælda. Stundum er hún notuð sem saladdressing, hún er notuð á hamborgara og með steiktum fiski og margvíslegum öðrum mat. Rétt eins og aðrar vinsælar amerískar sósur á borð við Ranch Dressing hefur hún fjarlægst uppruna sinn í þeirri mynd sem að hún fæst í stórmörkuðum og til að fá ekta Þúsundeyjasósu er öruggast að gera hana sjálfur.

Innihald sósunnar er ekki fasti. Stundum er sýrðum gúrkum bætt saman við og Worchestershire-sósu.

Við mælum eindregið með því að þið notið heimagert majonnes (smellið til að sjá uppskrift).

  • 3 dl majonnes
  • 1 dl tómatsósa
  • 1 harðsoðið egg, saxað fínt
  • 1 msk fínsaxaðar svartar ólífur
  • 1 msk saxaður graslaukur
  • 1 msk steinselja, fínsöxuð
  • 1/2 lítill laukur, fínsaxaður

Sjóðið eggið. Leyfið því að kólna og saxið niður. Blandið öllu saman í skál. Saltið með sjávarsalti og kryddið hressilega með nýmuldum pipar. Geymið í ísskáp.

Deila.