Kínversk kjúklingamarinering

Kínversk matargerð einkennist af einstökum brögðum en liturinn getur líka skipt miklu máli. Það olli mér nokkrum heilabrotum í heimsókn í Chinatown í einhverri stórborginni, gott ef það var ekki í hinni mögnuðu Chinatown í Melbourne, hvað endurnar og kjúklingarnir sem víða héngu niður úr loftinu í eldhúsum veitingastaðanna voru rauðar. Lengi vel velti maður því fyrir sér hvaða töfrakrydd það væri sem galdraði fram þennan lit sem gerði fuglana í senn framandi en jafnframt svolítið girnilega. Stundum er svarið hið augljósa – í þessu tilviki rauður matarlitur. Auðvitað er hægt að sleppa honum í uppskriftinni, hann gerir ekkert fyrir bragðið, en gleymið ekki að maður borðar jú líka með augunum.

IMG_8057

 

Þessi marinering er fín fyrir kjúkling. Það er tilvalilð að nota úrbeinuð læri eða lundir og láta þau liggja í marineringunni í 1-2 klukkustundir í ísskáp og setja síðan á grillspjót. Það má síðan auðvitað líka láta heilan kjúkling – eða butterfly-skorinn – liggja í marineringu í plastpoka og grilla síðan á teini (ef kjúklingurinn er heill) eða leggja einfaldlega á grillið ef hann hefur verið skorinn í butterfly.

  • 1 dl sojasósa
  • 2 msk Mirin (fæst í stórmörkuðum hjá asísku vörunum)
  • 1 msk Sesamolía
  • 2 msk hunang
  • 3 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 1 væn tsk kínverskt „Five Spice“ krydd
  • 1 væn msk rifinn engiferrót
  • 1/2-1 tsk chiliclögur (eftir því hvað þið viljið hafa þetta heitt)
  • 2 tsk rauður matarlitur

Blandið öllu saman og látið kjúklinginn liggja í kryddleginum áður en hann er grillaður. Berið fram með t.d. steiktum hrísgrjónum..

Með þessu passar gott ástralskt Chardonnay mjög vel – t.d. Jacob’s Creek Winemaker’s Reserve.

Deila.