„Nýr“ og glæsilegur Vínbar

Vínbarinn við Kirkjuhvol var fyrsti alvöru íslenski vínbarinn þegar að hann opnaði árið 2000. Hann hefur haldið þeirri stöðu í þau þrettán ár sem að hann hefur verið starfræktur. Í sumar lokaði Vínbarinn í þrjár vikur og hefur nú opnað á nýjan leik eftir algjöra umbyltingu í innréttingum. En það er ekki bara barinn sjálfur sem er breyttur, að mörgu leyti er Vínbarinn að hverfa aftur til upprunans og leggja enn meiri áherslu á vínin og þar að auki mat.

Gunnar Páll Rúnarsson, sem rekið hefur Vínbarinn frá upphafi, segir að margvíslegar breytingar séu í farvatninu og aukinn áhersla á mat eftir menningarnótt. Vínbarinn er  opinn í hádeginu mánudag til laugardags og þá boðið upp á smárétti, súpu og salöt auk þess sem kræklingur verður alltaf til. Um sexleytið bætist svo réttur kvöldsins við – einn á hevrju kvöldi. ´“Ég ætla ekkert að fara að vesenast með eitthvað á la carte,“ segir Gunni Palli, en hann sér sjálfur um eldamennskuna.

Vínin verða sem áður í forgrunni og verður að jafnaði boðið upp á tólf hvítvín og tíu rauðvín í glösum auk þess sem töluvert af betri vínum verða fáanleg í flöskum fyrir þá sem það vilja. Gunni Palli segir að skipt verði um glasavínin á þriggja mánaða fresti auk þess sem einhverju spennandi verði skotið inn í þegar ástæða þykir til.

Í hádeginu á laugardögum ætlar hann að prufa að vera með Egg Benedict og Bloody Mary. „Við ætlum að sjá hvort að það verði einhver stemmning fyrir því,“ segir Gunni Palli. Hann segist vera að gæla við að vera með opið á sunnudögum frá 16-20 en jafnframt verður lokað fyrr en verið hefur, í kringum tvö föstudaga og laugardaga og á miðnætti virka daga.

Deila.