Brokkolí og farro-salat

Farro, brokkólí og hnetur eru flott blanda. Salat sem stendur eitt og sér eða er frábært sem meðlæti með hvort sem er kjöti eða fiski. Farro er forn ítölsk hveititegund frá tímum Rómarveldis. Farro fæst t.d. í Frú Laugu og Kosti en það má líka nota bankabygg í staðinn.

  • 1 þokkalega vænn haus brokkólí
  • 2 dl farro
  • 1 lúka hnetur (valhnetur eða furuhnetur)
  • 1 dl saxaður fetaostur
  • 2 vorlaukar saxaðir
  • 1 búnt flatlaufa steinselja, fínsaxað
  • chiliflögur
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Sjóðið farro í um 7,5 dl af vatni þar til að það er orðið þokkalega mjúkt en þó enn svolítið fast undir tönn.

Skerið brokkólí smátt í bita. Setjið í fat. Hellið vel af ólífuolíu yfir. Saltið og piprið og blandði saman. Setjið í 200 gráðu heitan ofn og eldið þar til að það fer að taka á sig þokkalegan lit án þess þó að brenna. 20-30 mínútur.

Þurristið hneturnar. Saxið vorlauk og steinselju. Skerið fetaostinn niður í litla bita.

Blandið brokkólí og farro saman í stórri skál. Setjið hneturnar saman við ásamt steinselju og vorlauk. Hellið um 2 msk af góðri ólífuolíú og um 1 msk af raðuvínsediki saman við. Kryddið með salti, pipar og chiliflögum. Blandið vel saman. Blandið loks fetaostinum saman við og berið fram.

Deila.