Guðrún Jenný bloggar: Tveir rosalega fljótlegir fiskréttir

Einn frænda minna er afar duglegur að gefa mér fisk.  Þessi gjafmildi hans gerir það að verkum að ég á alltaf til frosinn fisk, bæði ýsu og þorsk og stundum slæðist rauðspretta með.  Við reynum að hafa fisk tvisvar til þrisvar í viku og ég er alltaf á höttunum eftir nýjum fiskuppskriftum svona til að reyna að halda þessu svolítið fersku og ekki alltaf vera bara með steiktan eða soðin.
Þessar tvær uppskriftir eru einstaklega heppilegar þegar maður er í tímaþröng .  Hér eru ekki gefnar upp nákvæmar mælieiningar heldur eru þetta meira svona slump.  Magn hráefnisins ræðst í raun af því hvað þú ert með mikið af fiski.  Við erum fjögur í heimili, tveir fullorðinn, einn unglingur og einn 11 ára sem borðar eins og griðungur og miðast það magn sem ég gef upp til viðmiðunar við þennan fjölda heimilismanna.
Bananafiskur:

 • 2 góð fiskflök (ýsa / þorskur)– skorin í bita
 • hveiti
 • 1 Laukur – skorinn ekki of smátt
 • ½ pakki sveppir – skornir í fjórðunga
 • 2 bananar – skornir í sneiðar ekki of þunnar
 • 1 peli rjómi
 • Sletta af sojasósu
 • Olía og smá smjör til steikingar

Byrjið á því að skera laukinn og sveppina og steikið í olíunni og smjörunni.  Takið af pönnunni þegar laukurinn er orðinn glær og mjúkur.  Veltið fiskinum upp úr hveitinu  og brúnið hann á pönnunni.  Setjið lauk, sveppi og fisk í eldfast mót.  Setjið nú bananabitana út á heita pönnuna og steikið í smá stund, passið að þeir brenni ekki og að þeir fari ekki mauk.  Hellið rjómanum út á og smakkið til með sojasósu.  Sojasósan á að gefa smá bragð ekki yfirgnæfandi.  Rjóma / bananablöndunni er svo hellt yfir fiskinn og hann bakaður í ofni þar til fiskurinn er tilbúinn.
Borið fram með hrísgrjónum og salati.

Rauð pestó fiskur

 • 2 góð fiskflök (ýsa / þorskur) –skorin í bita
 • hveiti
 • 1 krukka rautt pestó
 • 250 ml  matreiðslurjómi
 • 1 laukur – skorinn þó ekki of smátt
 • ½ pakki sveppir – skornir í fjórðunga
 • Olía og smjör til steikingar

Steikið lauk og sveppi á pönnu, veltið fiskinum upp úr hveitinu og brúnið á pönnunni.  Herlegheitin sett í eldfast mót og pestókrukkan sett á pönnuna og rjóminn með.  Hitið og hrærið í þar til þessi fínasta sósa verður til.  Hellið yfir fiskinn í mótinu og bakið í ofni þar til fiskurinn er tilbúinn.

Deila.