Hallveig bloggar: Lambalæri Masala Raan

Indversk matargerð er í miklu uppáhaldi hér á bæ og eins og sönnum íslendingum sæmir erum við líka einstaklega hrifin af lambalærum. Því er mikil hátíð í bæ þegar þetta tvennt fer saman og af þeim sökum  er þessi ögn flókna uppskrift algjörlega vesenisins virði. Hún er reyndar hentug í matarboð því mesta vinnan á sér stað daginn áður en maturinn er borðaður, sem er alltaf kostur. Lærið dundar sér í 3 tíma í ofninum og því er nægur tími til að brasa í heimabökuðu naan sem lyftir hverri indverskri máltíð upp á næsta stig.

 • 1 lambalæri, fremur smátt (1.6 kg)
 • 2 litlir laukar
 • 6 hvítlauksrif
 • 2 cm engiferrót
 • 2 græn chili, fræhreinsuð (gott að skilja
 • 50 gr möndlur
 • 2 dósir hrein jógúrt
 • 2 msk broddkúmen (cumin)
 • 3 msk kóríanderduft
 • 1/2 tsk chili duft
 • 1 tsk garam masala
 • 2 tsk maldon salt

á eldunardag:

 • 4 msk grænmetisolía, t.d. Isio 4 eða sólblómaolía
 • 10 grænar kardemommur
 • 7 negulnaglar
 • 8 svört piparkorn
 • 2 kanelstangir
 • ristaðar möndluflögur til að dreifa yfir kjötið að eldun lokinni.

grófskerið laukinn, hvítlaukinn, engiferinn, möndlurnar og chili ávextina og maukið saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Hrærið kryddinu út í jógúrtið og blandið svo lauk-möndlublöndunni saman við. Fitu- og sinahreinsið lærið og skerið djúpar raufir í kjötið. Setjið lærið í eldfast fat og nuddið maríneringunni inn í kjötið og raufarnar allan hringinn.Pakkið restinni af maukinu á lærið og vefjið plastfilmu utan um fatið. Geymið í ísskáp í sólarhring.

Takið kjötið úr ísskáp um miðjan dag daginn eftir svo það nái stofuhita áður en byrjað er að elda. Kveikið á ofninum á 150° 3 tímum áður en áætlað er að borða og takið plastið utan af kjötinu. Hitið olíuna á pönnu og „vekið“ heila kryddið, leyfið því að krauma í nokkrar mínútur þangað til fer að koma ilmur af því.

Hellið að því búnu olíunni yfir kjötið í fatinu, pakkið vel inn í álpappír og setjið í ofninn í einn og hálfan tíma. Að þeim tíma liðnum er álpappírinn tekinn af og lærið steikt í klukkutíma í viðbót.  Ausið með vökvanum í fatinu á 10 mínútna fresti svo kjötið haldist safaríkt. Að steikingu lokinni þarf kjötið að hvíla sig undir álpappír í 20 mínútur.

Dreifið ristuðum möndluflögum yfir lærið og berið fram á fati með vökvanum úr fatinu í sósukönnu. Með þessu bar ég fram basmati grjón, mango chutney og nýbökuð naan brauð með hvítlauks- og kóríandersmjöri.

Deila.