Sænskar lúsíubollur

Svíar halda Lúsíu-daginn hátíðlegan þann 13. desember ár hvert. Þá eru mikil hátíðarhöld í skólum á vinnustöðum þar sem að  síðhærð stúlka klædd í hvitan kufl með rautt linda um mittið og kertakórónu táknar Lúsíu og  gengur fyrir fylkingu tólf þerna með kertaljós auk „stjörnudrengja“ eða „stjarngossar“, sem eru drengir í kuflum haldandi á stjörnu. Þessu fylgir mikill og hátíðlegur söngur er Lúsían færir ljósið inn í morgunmyrkur skammdegisins.

Hefðin er mjög gömul og sækir bæði í heiðni og kristna trú. Á miðöldum var júlíanska dagatalið í gildi og vetrarsólstöður 13. desember. Samkvæmt þjóðtrúni voru ýmsar miður góðar verur á kreiki þessa lengstu nótt ársins sem þurfti að fæla í burtu með ljósi og söng. Þó svo að vetrarsólstöður hafi færst með upptöku gregoríanska dagatalsins hefur 13. desember enn þessa merkingu.

Lúsían á líka ættir að rekja til SIkileyjar og kvendýrlingsins heilagrar Lúsíu eða Sancta Lucia. Rauða mittislindað er þó það eina sem situr eftir af sikileysku hefðinni í Svíþjóð.

Mikilvægur hluti Lúsíudagsins er bakstur á lúsíubollum sem einnig eru kallaðir „lussekatter“ á sænsku eða lúsíukettir. Þetta eru gerbollur með saffran og talið að þær hafi borist til Svíþjóðar frá Þýskalandi á miðöldum. Samkvæmt þjóðsögunni kom kölski þessa nótt og rasskellti krakka en Jesús bjargaði þeim með gómsætum bollum. Þannig er líka tenging á milli orðanna „lúsía“ og Lúsífers og raunar einnig latneska orðsins lux sem merkir ljós.

En hér er sígild uppskrift að sænskum lúsíubollum:

  • 15 dl hveiti
  • 200 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • 1,5 dl sykur
  • 1-2  g saffran
  • 1 bréf þurrger (50 g)
  • klípa af salti
  • egg (til að pensla)
Hitið smjör og mjólk í potti þar til hún er orðin vel volg. Blandið sykri, saffran, geri og geri saman við. Hrærið saman við hveitið, hnoðið deigið vel og leyfið síðan að lyfta sér í allt að 45 mínútur. Fletjið deigið aðeins út (ekki mjög þunnt) og mótið síðan lúsíubollur. Klassískar bollur eru til dæmis „öfugt S“ þar sem endunum er rúllað upp sitthvorum megin.
Setjið bollurnar á bökunarplötu og leyfið þeim að lyfta sér aftur undir viskustykki í aðrar 45 mínútur.
Penslið með eggi og stráið perlusykri eða rúsínum yfir.
Bakið í um 10 mínútur í miðjum ofni við 200 gráður.
Deila.