Jólagæs fyllt með eplum og sveskjum

Gæs hefur ekki verið fyrirferðarmikil á jólaborðum Íslendinga ef frá er skilin íslenska villigæsin. Aligæsin er hins vegar allt annað fyrirbæri, þetta eru stórir og miklir fuglar sem gott er að elda með fyllingu. Það að fylla fugla með ávöxtum er aldagamall evrópskur siður sem rekja má allt aftur til miðalda og fyllt gæs er sígildur jólamatur víða í Evrópu, t.d. á Bretlandseyjum og á Norðurlöndunum. Það má fá gæsir í flestum stór mörkuðum.

Það er í sjálfu sér ekki flókið að elda gæs, það tekur hins vegar nokkrar klukkustundir.

  • 1 gæs, um 5 kíló
  • 4-5 epli
  • ca 2 lúkur af sveskjum
  • salt og pipar

Afþíðið gæsina, það tekur 1-2 sólarhringa í ísskáp. Takið hana tímanlega úr ísskápnum og leyfið að ná stofuhita. Skerið umframfitu af gæsinni. Ekki henda henni – það er frábært að nota gæsafitu, rétt eins og andarfitu, til að elda til dæmis kartöflur upp úr.

Flysjið eplin, kjarnhreinsið og skerið í báta. Troðið gæsina vel út með eplunum og sveskjunum, eins miklu og þið komið fyrir. Saltið hana vel og piprið.

Setjið í ofnskúffu, helst með grind. Í botninn er settur grófsaxaður laukur, 2 grófsaxaðar gulrætur, 2 saxaðir  sellerístönglar, nokkrir timjanstönglar og um 1 lítri af vatni.

HItið ofninn í 220 gráður. Setjið ofnskúffuna með gæsinni í ofninn. Eftir 20 mínútur er hitinn lækkaður í 180 gráður. Eldið áfram í um 3 klukkustundir.

Takið gæsina út úr ofninum og leyfið að standa í um 20 mínútur. Á meðan er tilvalið að gera sósu og nota soðið sem hefur myndast í ofnskúffunni.  Skafið vel upp skófarnar. Sjóðið niður með um 4-5 dl rauðvíni og 2,5 dl rjóma þar til að sósan fer að þykkna. Annað hvort er hægt að gera þetta í ofnskúffunni ef setja má hana á eldavél eða þá sía soðið í pott og sjóða áfram. Saltið vel og piprið sósuna.

Berið fram með heimalöguðu rauðkáli,  einhverjum góðum kartöflum (smellið hér til að fá hugmyndir) og sósunni. Það má líka hafa Waldorf-salat með. Og auðvitað eplin og sveskjurnar sem búið er að elda inní gæsinni.

Gott rauðvín með, t.d. Frakka frá Bordeaux eða Búrgund.

Hér getið þið skoðað nokkrar af vinsælustu jólauppskriftunum.

Deila.