Jólamaturinn – Bestu uppskriftirnar

Þær eru margar jólahefðirnar og á mörgum heimilum hafa orðið til fastmótaðar hefðir um hvað sé í matinn á jólunum sem fylgt er af mikilli festu ár eftir ár og ekki til umræða að gera svo lítið sem smávægilegar breytingar. Á öðrum heimilum er meira um tilraunastarfsemi og ný leið farin á hverju ári þótt bregði jafnvel við að einhverjir réttir festi sig smám saman í sessi og verði að fastri hefð. Vinsælasta hráefnið á jólaborðum Íslendinga hefur lengi verið hamborgarhryggurinn. Þessi verkun á grísakjöti barst hingað til lands frá Danmörku en þar er hamburgerryg vinsæll, þó svo að hann tengist ekki sérstaklega jólunum. Upprunalega kemur þessi réttur hins vegar frá Þýskalandi, þar heitir hann Kassler en Þjóðverjar nota ekki einungis hrygginn heldur verka margvíslega vöðva með þessum hætti. Það að hjúpa hamborgarhrygginn líkt og við gerum er hins vegar komið frá Dönum. Leiðbeiningar og uppskrift af því hvernig hamborgarhryggur er eldaður er hér. Það er hægt að gera ýmis afbrigði af hamborgarhryggnum og forvitnileg leið er hamborgarhryggur með kóksósu.

Við höfum tekið upp marga siði frá Dönum og því engin furða að öndin nýtur mikilla vinsælda á jólunum. Fyllt önd er nefnilega algengasti rétturinn hjá Dönum á aðfangadag og jóladag. Ekki síst nýtur mikilla vinsælda hjá frændum okkar að fylla heila önd með sveskjum og eplum og hafa ljúffenga sósu með. Við erum með nokkrar uppskriftir að danskri jólaönd og þær má finna með því að smella hér. Svo er líka auðvitað hægt að elda öndina upp á franska vísu til dæmis með önd með rauðvínssósu eða að gera appelsínuönd eða Canard á l’orange. Önd má raunar enda á nær óendanlega vegu og þið finnið allar andaruppskriftirnar okkar hér. Fyrir þá stórtæku er svo líka hægt að fara í jólagæsina sem er vinsæl á jólaborðum víða í Evrópu.

Ef við höldum okkur við Norðurlöndin þá verður auðvitað að nefna sænsku jólaskinkuna sem er vinsælasti rétturinn á jólaborðum Svía. Uppskrift að sinnepshjúpaðri sænskri jólaskinku er hér.   Villibráðina verður líka að nefna, hreindýr, rjúpu, villigæs. Við erum með magnaða uppskrift frá Toskana af truffluðum rjúpum og svo auðvitað líka klassískri rjúpu. Villigæsin er líka mögnuð og hana má t.d. elda með rósakáli og beikoni. Hreindýrið er svo líklega aðgengilegasta villibráðin okkar og einhver sú besta. Nokkrar hugmyndi að því hvernig elda má hreindýr er hægt að nálgast hér.

 

Meðlætið með skiptir gífurlega miklu máli. Það er til dæmis nauðsynlegt að hafa heimalagað rauðkál og svo auðvitað Waldorf-salat. Og svo eru það’ kartöflurnar. Við erum búin að taka saman vinsælustu kartöfluuppskriftirnar með veislumatnum og þær má finna hér.

En auðvitað verður líka að hafa forrétt. Við mælum eindregið með humarsúpu sælkerans eða laxamús með hvítvínshlaupi. Fyrir þá sem vilja halda í gamlar hefðir eru fylltar tartalettur ómissandi eða þá humar á smjördeigsbeði.

Klassískir eftirréttir eru síðan möndlugrautur-riz á la mande og ananasfrómas.eða sérrítriffli

. Allar jólauppskriftirnar má svo skoða hér. 

Deila.