Grískt Quinoa salat

Gríska salatið er sígilt Miðjarðarhafssalat sem að hér mætir suður-amerísku Quinoa-kornunum, sem eru í flokki svokallaðra ofurmatvæla (super-food). Útkoman er unaðslegt og heilnæmt salat.

 • 2 dl Quinoa
 • 1 agúrka
 • 1 box litlir tómatar (t.d. kirsuberja, piccolo eða konfekttómatar)
 • 1/2 laukur saxaður
 • grænt salat, t.d. Romaine,
 • 1 búnt flatlaufa steinselja, fínsöxuð
 • 1/2 Fetakubbur, skorinn niður

Sjóðið Quinoa samkvæmt leiðbeiningum. Fyrir 2. dl þarf ca 6 dl. af vatni. Sjóða í um 20 mínútur eða þar til vatnið hefur gufað upp. Látið standa og kólna.

Fræhreinsið agúrku og skerið í litla bita. Skerið tómata í tvennt eða fernt. Fínsaxið lauk og steinselju. Sneiðið salatið niður.

Gerið salatsósu (vinaigrette)

 • safi úr 1 sítrónu
 • ca 1 dl mjög góð ólífuolía
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk Dijon-sinnep
 • dass af balsamik-ediki
 • 1 væn tsk þurrkað óreganó
 • salt og pipar

Pískið saman sinnep, balsamik og hunang. Pískið sítrónusafanaum vel saman við. Pískið olíunni smám saman út í. Bætið óreganó út í. Bragðið til með salti og pipar.

Setjið saman salatið. Fyrst er grænmetinu og salatsósunni blandað saman. Quinoa hrært saman við og loks fetaosti.

Uppskrift að klassísku grísku salati finnurðu svo hér.

Deila.