Hallveig bloggar: lasagna eða ítalskt Loseyn

Um uppruna orðsins lasagna eru þrjár mismunandi kenningar. Sú fyrsta er að orðið sé útgáfa af gríska orðinu lagana sem þýðir óhefað brauð. Sumir segja að það sé komið af öðru grísku orði, lasana sem þýðir standur fyrir matarílát. Orðið var seinna tekið upp af Rómverjum og notað yfir eldfast fat. Sú þriðja, sú sem ég er skotnust í, er að orðið sé komið úr engilsaxnesku, tekið frá orðinu Loseyn. Loseyn var enskur réttur frá 15. öld, sem fyrirfinnst í matreiðslubók sem tileinkuð var Ríkarði þriðja. Sá réttur er mjög líkur hefðbundnu lasagna að uppbyggingu, eini munurinn var sá að í honum voru engir tómatar, enda komu tómataplöntur ekki til Evrópu fyrr en eftir að Kólumbus fann Ameríku í lok 15. aldar, árið 1492!

Uppskriftin sem hér fylgir er sú sem ég eldaði í kvöld, grunnuppskriftin af mínu hefðbundna lasagna er yfirleitt mjög svipuð, en litast þó af því sem ég á í skápunum. Leyndarmálið sem gerir réttinn þó alltaf dásamlegan er að ég set ostinn í béchamel sósuna og saxa ósköpin öll af ferskri basiliku saman við hana. Það setur punktinn yfir i-ið!

Kjötsósan:

 • 500 gr jöklanautahakk úr Frú Laugu
 • tvær góðar beikonsneiðar úr Pylsumeistaranum (eða 4-5 sneiðar af búðarkeyptu beikoni)
 • 1 stór laukur
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 2 gulrætur
 • 2 sellerístönglar
 • ein flaska passata (eða tvær dósir góðir tómatar, maukaðir)
 • 1 dós tómatpurée
 • 2 greinar ferskt timian
 • 1 tsk þurrkað basilikum
 • 1 tsk italian seasoning
 • Maldon salt og nýmalaður pipar
 • 1 tsk sykur
 • 3 lárviðarlauf
 • 1 glas rauðvín
 • 1 msk smjör og 1 msk olía
 • 1 góður nautateningur, helst Kallo
 • Vatn eftir þörfum

Ostasósan:

 • 2 msk smjör
 • 2 msk hveiti
 • 700 ml mjólk
 • Nýmalaður svartur pipar
 • ¼ tsk múskat
 • 3 msk saxað ferskt basil
 •  100 gr bragðmikill ostur (ég notaði afganginn af hátíðarostinum en það mætti nota ísbúa eða sterkan Gouda)
 • 200 gr poki gratínostur (mozzarella og gouda)
 • Lasagnaplötur
 • Rifinn Parmigiano Reggiano

Aðferð:

Allavega 4 tímum fyrir matmálstíma þarf að gera kjötsósuna. Saxið beikonið smátt og  steikið á pönnu eða í góðum þykkbotna potti. Takið beikonið uppúr með gataspaða og bætið smjörinu og olíunni saman við beikonfituna í pönnunni. Maukið grænmetið, timianið og þurrkuðu kryddin saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Setjið í pottinn/pönnuna og steikið í nokkrar mínútur við miðlungshita, bætið svo hakkinu saman við og brúnið. Saltið og piprið kjötið, bætið svo beikoninu, passötunni, tómatpúrrunni, lárviðarlaufunum og sykrinum við. Leysið teninginn upp í svolitlu sjóðandi vatni og bætið út í, ásamt rauðvíninu. Lækkið hitann og látið malla í 3 tíma eða meira, í dag sauð sósan hjá mér frá kl 13-18!
40 mínútum fyrir matmálstíma er kveikt á ofninum á 200°. Hitið mjólkina í litlum potti og í stærri potti bræðið smjörið og gerið smjörbollu úr hveitinu. Hellið mjólkinni saman við og þegar sósan fer að þykkna bætið þá bragðmikla ostinum út í, og stærstum hluta gratínostsins. Geymið þó ca 1/4 til að dreifa yfir í lokin. Piprið, og bætið múskati og saxaðri basiliku saman við.
Til að gera lasagnað takið þá stórt ferkantað eldfast mót, setjið ostasósu í botninn, þá lasagnaplötur, meiri ostasósu og kjötsósu, þá lasagnaplötur, ostasósu, kjötsósu  osfrv. Endið á lasagnaplötum og ostasósu yfir þær, dreifið afganginum af rifna ostinum yfir og smávegis af rifnum parmigiano reggiano.
Bakið í ofni í 25 mínútur og berið fram með hvítlauksbrauði og salati. Mitt salat í þetta skiptið var einstaklega einfalt, klettasalat, piccolotómatar , hash avocado, nokkrar furuhnetur og fetaostur.

Með matnum drukkum við ágætis Chianti frá Villa Piccini. Enginn bolti enda á það ekkert við hér 🙂

Deila.