Víetnamskar grísakótilettur á grillið

Víetnamskar grísakótilettur eða Suon Nong eru frábærar á grillið eftir að hafa legið í lemongrass-marineringunni. Þær eiga að vera mjög þunnar og því þarf að berja þær aðeins til með kjöthamri eða þá að biðja starfsfólkið í kjötborðinu  um  að skera niður mjög þunnar sneiðar.

Kryddlögurinn:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl vatn (sjóðheitt)
  • 2 lemongrass-stönglar
  • 2 skalottulaukar
  • 10 hvítlauksgeirar
  • 2 msk olía, t.d. jarðhnetuolía
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk fiskisósa
  • 1 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk mulinn pipar

Setjið sykurinn í pott og hitið á miðlungshita þar til að hann hefur bráðnað alveg. Hellið þá sjóðheitu vatninu saman við og hrærið í þar til að sykurkaramellan hefur leysts alveg upp í vatninu. Leyfið að kólna.

Maukið allt vel saman í matvinnsluvél.

Berjið grísakótiletturnar vel til með kjöthamri, þær eiga að vera um 1 sm þunnar. Látið kótiletturnar í marineringuna og geymið í kæli í að minnsta kosti klukkustund, held lengur.

Grillið eða steikið á pönnu. Berið fram með hrísgrjónum.

Deila.