Fullkomnar franskar

Franskar kartöflur eru hugsanlega ekki franskar að uppruna. Uppruni þeirra er ekki alveg ljós en sterk rök hafa verið færð fyrir því að þessi aðferð við að elda kartöflur, skera þær í litla bita og djúpsteikja sé upprunnin í Belgíu en ekki Frakklandi. Þá eru jafnvel kenningar uppi um að það hafi verið Spánverjar sem hafi byrjað að djúpsteikja kartöflur en þangað bárust kartöflur fyrst á sínum tíma frá Ameríku.

Það breytir ekki því að franskar kartöflur eru nú orðið einhver vinsælasti kartöfluréttur veraldar. Margir tengja þær við skyndibitafæði en þær eru ekki síður vinsælar á frönskum bistro-veitingahúsum þar sem þær eru bornar fram með steik, í Belgíu þar sem þær eru snæddar með krækling og á spænskum tapasbörum þar sem patatas fritas verða að patatas bravas þegar þær eru borðnar fram með sterkri chilisósu.

Það er hægt að gera alveg fullkomnar franskar heima hjá sér og til þess þarf engan djúpsteikingarpott. Galdurinn er að láta frönskurnar liggja fyrir í vatni áður en þær eru steiktar og að tvísteikja þær.

Byrjið á því að flysja kartöflurnar og skera niður í litlar stangir. Stærð og þykkt á frönskum kartöflum er smekksatriði en það er ágætt að hafa þær ekki of stórar. Ef þið viljið hafa þær fullkomnar í laginu eru endarnir fyrst skornir af kartöflunum þannig að þær verði eins og kubbar.

Þegar að búið er að skera þær niður eru þær látnar liggja í skál eða potti með köldu vatni í 1-2 klukkustundir, jafnvel lengur. Við þetta losnar sterkja af kartöflunum og þær verða stökkari við steikingu.

Fyrir steikingu eru kartöflurnar teknar upp úr skálinni, vatnið látið renna af þeim og þær settar í viskustykki til þerringar.

Hitið næst olíu í þykkum potti. Það er gott að nota t.d.pottjárnspott. Það þarf töluvert af olíu en ekki setja of mikið því þá fer að gusast upp úr pottinum. Ágætt að miða við að tæplega hálffylla pottinn af olíu. Olían þarf að vera hitaþolin og er fínt að nota t.d. jarðhnetuolíu (Peanut Oil) eða Canola-olíu.

Hitið olíuna varlega. Hún á að vera um 150 gráðu heit. Þegar olían er orðin heit eru kartöflurnar settar ofan í og steiktar þar til að þær eru orðnar mjúkar. Það tekur um 5-7 mínútur eftir því hvað kartöflurnar eru þykkar. Setjið bökunarpappír eða eldhúspappír á ofnskúffu. Stingið í kartöflu til að sjá hvort að hún sé tilbúin. Þegar þið eruð sátt eru kartöflurnar veiddar upp úr og settar í ofnskúffuna.

Yfirleitt þarf að steikja kartöflurnar í 2-3 umferðum. Fer auðvitað eftir magni og stærð steikingarpottsins.

Þá er komið að seinni umferðinni. Það má alveg hafa smá pásu á milli – oft þarf að huga að öðru í eldhúsinu líka.  Munið þá bara að slökkva á hitanum undir olíunni á meðan.

Hitið olíuna upp í um 200 gráður. Auðvitað eru fæstir með hitamæli sem hægt er að nota í steikingarpotti þannig að maður þarf svolítið að treysta á tilfinninguna. Þegar olían er nánast farin að sjóða er hún orðin mjög heit.

Setjið nú frönskurnar aftur ofan í pottinn (varlega – olían er heit) og steikið aftur. Smám saman byrja kartöflurnar að dökkna aðeins og verða stökkar. Þið finnið það þegar að þið hrærið varlega í pottinum með skeið þegar að þær fara að verða stökkar. Það fer ekki á milli mála.

Takið upp úr pottinum, leggið aðeins til þerris á eldhúspappír eða bökunarpappír og saltið með góðu sjávarsalti.

Það má auðvitað gera margt annað við kartöflur. Smelltu hér til að finna allar klassísku og góðu kartöfluuppskriftirnar.

 

 

Deila.