Tickets – tapasævintýri í Barcelona

Það eru til margir frægir veitingastaðir í heiminum. Fáir hafa hins vegar náð því að verða jafnmikil goðsögn og El Bulli, veitingastaður Ferran Adria í þorpinu Roses í Katalóníu á Spáni. Adria opnaði nýjar víddir í matargerðinni og framúrstefnulegar aðferðir – stundum kennt við sameindaeldhús (molecular cuisine) – breyttu nálgun matreiðslumanna um allan heim. El Bulli var einungis opið nokkra mánuði á ári og þúsundir voru jafn á biðlista til að ná sæti á þessum umsetnasta veitingahúsi sögunnar.

Það kom mörgum á óvart þegar að Adria tilkynnti árið 2011 að veitingahúsinu yrði lokað en um það má lesa hér. El Bulli hefur ekki opnað á ný en það er ekki þar með sagt að Adria hafi hætt að elda. Hann var raunar aldrei einn um hituna – það voru þeir bræður Albert og Ferran Adria sem héldu utan um El Bulli þótt Ferran hafi verið andlitið út á við.

Albert Adria í samvinnu við bróður sinn Ferran hefur opnað nokkur veitingahús í Barcelona. Þekktast þeirra er Tickets sem þeir stofnuðu í samvinnu við Iglesias-fjölskylduna sem rekur einn besta sjávarréttastað Barcelona Rias de Galicia.

Tickets er ofarlega á Paralell-breiðgötunni, skammt frá Plaza de Espanya og er eiginlega engum öðrum stað líkur. Eins konar blanda af klassískum amerískum „diner“, tívolíi og spænskum tilvísunum. Alls enginn hefðbundinn veitingastaður og það sama má segja um matinn. Í þessu andrúmslofti er spænska tapasmenningin tekin og henni splæst saman við alþjóðleg áhrif og þá framúrstefnu sem El Bulli var þekkt fyrir. Ekkert er eins og það sýnist. Ólífurnar á Tickets líta vissulega út eins og hefðbundnar ólífur en eru það samt ekki. Með vísindalegri eldhústækni þeirra Adria-bræðra hefur ólífunni verið breytt í eins konar hlaup sem bráðnar eða öllu heldur springur þegar í munninn er komið og leysir úr læðingi bragð ólíkra ólífna. Kóngakrabba hefur verið breytt í canelloni og í pasta með pestó er öllu snúið á hvolf. Það sem virðist vera pasta er í raun basil“hlaup“ sem hefur verið umbreytt í pastarör. Ostrur af margvíslegu tagi og annað sjávarfang frá Galisíu er auðvitað á seðlinum og meðal eftirréttanna er kaffibrioche sem lítur út eins og korktappi.

Tickets er veisla fyrir öll skynfæri, einstök upplifun og matarveisla sem mataráhugamenn sem heimsækja Barcelona ættu ekki að láta fram hjá sér fara. En pantið í tæka tíð. Þótt það sé ekki eins langur biðlisti á El Bulli eru borðin á Tickets oft uppbókuð með margra vikna og jafnvel mánaða fyrirvara.

Það er hægt að panta borð á heimasíðu Tickets.

Deila.