A Mano-vínin frá Púglía eru afsprengi tveggja eldhuga, kaliforníubúans Marks og hinnar ítölsku Elviru. Hann er víngerðarmaður, hún hafði unnið við sölu og markaðssetningu vína. Þau felldu hugi saman og hafa síðan unnið að víngerð í Púglía, syðst á Ítalíu. Rauða Primitivo-vínið þeirra hefur verið fáanlegt hér á landi í rúman áratug og fleiri vín hafa bæst við – nú er komið að freyðivíni.
Þetta er fyrsta freyðivínið frá Púglía sem að við smökkum. Blandan er rauðar og hvítar þrúgur til helminga, allar suður-ítalskar. Sú hvíta er Greco di Tufo og þær rauðu Primitivo og Negroamaro.
Spumante Rosa freyðir vel, er mjög fölbleikt, angan af rauðum berjum, hindberjum, jarðaberjum, örlítið ger og kex. Mjög þurrt, örlítið beiskt með nokkrum ávexti. Flott og skemmtilegt freyðivín.
2.399 krónur. Mjög góð kaup.