Torfan komin á ný

Gömlu húsin við Bernhöftstorfuna austan Lækjargötu mynda elstu heillegu götumynd landsins og sömuleiðis einhverja þá fallegustu. Í dag er í raun ótrúlegt til þess að hugsa að fyrir nákvæmlega 42 árum hafi menn bundist samtökum til þess að koma í veg fyrir að þessi hús yrðu jöfnuð við jörðu og í stað þeirra byggt yfir stjórnarráðið. Að Torfusamtökunum stóðu Bandalag íslenskra listamanna og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka. Sem betur fer varð ekki af þessu og húsin í Ingólfsbrekkunni, sem loks voru friðuð árið 1979,  eru nú eitt helsta kennileiti miðborgarinnar.

Í gamla landsfógetahúsinu við Amtmannsstíg eitt, sem upphaflega var byggt 1838, opnaði veitingahúsið Torfan í júní 1980. Þar hefur allta tíð síðan verið veitingarekstur, þó undir mismunandi nöfnum. Nú síðustu árin hefur hin vinsæli veitingastaður Humarhúsið verið þar til húsa en í haust var rekstur hans seldu sömu aðilum og hafa um árabil rekið Lækjabrekku, aðeins norðar á Bernhöftstorfunni.

Fyrir skömmu var svo opnað á ný undir „nýju“ nafni og er Torfan aftur komin í veitingahúsaflóru Borgarinnar. Nafnaskiptin munu vera tilkomin vegna þess að nýir eigendur vildu leggja áherslu á að þótt að sjávarrétir væru fyrirferðarmiklir á matseðlinum væri ekki um hreinræktaðan sjávarréttastað að ræða heldur alhliða veitingahús.

Staðurinn hefur þó ekki tekið neinum stakkaskiptum og sama andrúmsloft og var á Humarhúsinu ræður enn ríkjum. Einhverjar breytingar hafa þó verið gerðar, ekki síst á efri hæðinni þar sem borðum hefur verið fjölgað og einkaherbergi tekið á sig nýja mynd.

Á matseðlinum má enn finna humarinn sem svo lengi hefur verið vinsæll í þessu húsi og teymið í eldhúsinu er í stórum dráttum það sama og var á tímum Humarhússins. Við reyndum líka saltfisk, léttsaltaðan yfir nótt, borinn fram í þynnum ásamt hörpuskel og vinaigrette-með stökkum chorizobitum og ólífum. Humar kallar einhvern veginn á Chardonnay og því varð Marques de Casa Concha frá Chile fyrir valinu.

Ef menn vilja ekki halda áfram í humar er hægt að fara yfir í steikurnar. Hrossakjötið hefur lengi verið vinsælt í þessu húsi og er enn í boði en við reyndum ribeyesteikina. Hún er þverskorin þannig að úr verður steik sem minnir mest á tournedo-bita. með þessu Bordelaise-sósa, jarðskokkar, svartrót og sveppa-duxelle. Lambið var fitusnyrt filé, ásamt langelduðu kjöti af læri, grænertur og terrine úr kartöflum og gulrótum. Báðir réttirnir bragðmiklir en  ástralska Syrah-rauðvínið Wyndham’s Bin 555 réði vel við þá, kröftugt og ávaxtamikið með hæfilegum tannínum til að takast á við matinn.

Þegar kom að eftirréttunum var ákveðið að reyna súkkulaðiostakökuna, ekki síst vegna þess að á disknum var eins konar ganache úr mysingi, virkilega ljúffengt. Það átti einni við um eplakökuna sem kom með krapís og á stökku smjördeigi.

Torfan hyggst sömuleiðis leggja mikinn metnað í drykki eftir mat og í koníaksskápnum er að finna glæsilegt úrval ekki bara af eðalkoníaki heldur einnig viský, calvados og öðrum drykkjum.

 

 

Deila.