Hildigunnur bloggar – Bökuð ostakaka með hindberjum og sítrónu

Hér á bæ er nánast ekkert bakað nema ostakökur þessa dagana. Byrjaði á þessu fyrir áramótin og kolféll fyrir dæminu.

Hér kemur ein sem var bökuð fyrir föstudagskaffið í vinnunni. Var étin upp til agna þannig að ég gæti neyðst til að baka hana aftur svo fjölskyldan fái líka að smakka.

Í hana fer:

botn
1 pk Lu kanilkex
100 g smjör

ostablanda
600 g rjómaostur
250 g hrásykur
150 g hrein jógúrt
3 egg, meðalstór
60 g hveiti
rifinn börkur af tveimur sítrónum
safi úr einni sítrónu
200 g fersk hindber

Hitið ofninn í 120°

Klæðið 23 cm smelluform með smjörpappír í botninn.
Bræðið smjörið
Hakkið kexið fínt niður í matvinnsluvél eða setjið í poka og myljið með kökukefli.
Blandið brædda smjörinu saman við kexmylsnuna og þjappið í botn smelluformsins. Kælið meðan ostablandan er búin til.

Þeytið rjómaostinn og sykurinn þar til mjúkt (Mér finnst gott að nota rjómaostinn frá Ostahúsinu því hann er talsvert mýkri en sá frá Osta og smjörsölunni eða Philadelphia og ég gæti trúað því að kökurnar verði svolítið léttari með honum)
Bætið jógúrti saman við og þeytið saman.
Bætið við eggjunum, einu og einu í einu og þeytið vel á milli.
Setjið hveitið, sítrónubörkinn og sítrónusafann saman við og hrærið þar til vel blandað.

Að lokum, bætið hindberjunum varlega saman við. Vel má hugsa sér að geyma nokkur til skrauts.

Hellið blöndunni yfir botninn og bakið í miðjum ofni í 45 mínútur. Slökkvið á ofninum og leyfið kökunni að standa í klukkutíma áður en hún er tekin út. Kælið í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.

Mynd fengin með góðfúslegu leyfi hjá Albert Eiríkssyni

Deila.