Clos d’Ora – fyrsta „Grand Cru“ suðursins

Languedoc í Suður-Frakklandi er eitt af þeim svæðum sem að menn hafa lengi horft til sem leynivopns Frakka í baráttunni við innrás vínanna frá Nýja heiminum. Þar er gífurlega mikið magn af víni ræktað og loftslagið er stöðugt, hlýtt og þurrt. Áratugum saman var hins vegar megnið af framleiðslunni í neðstu gæðaflokkunum. Vín sem fóru beint í flokkin vin de pays eða jafnvel í edikframleiðslu eða eimingu þar sem að neytendur höfðu ekki áhuga á framleiðslunni og bændur framleiddu einungis vegna niðurgreiðlsnanna. Þetta hefur verið að breytast hratt og á síðustu árum hafa framleiðendur í Languedoc loksins verið að nýta þá möguleika sem þarna eru til framleiðslu á góðum vínum á hagstæðu verði.

Gerard Bertrand hefur verið þar hvað fremstur í flokki. Vínhús hans á borð við Hospitalet, Villemajou, Sauvageonne, l’Aigle og Cigalus eru með þeim allra bestu á svæðinu og framleiða öll vín í nokkrum gæðaflokkum, allt upp í ótrúleg einnar ekru ofurvín. Þar að auki framleiðir Bertrand suður-frönsk „einnar þrúgu“ vín þar sem notaðar eru þrúgur af mismunandi svæðum.

Síðastliðið haust var hulunni svipt af nýjasta vínhúsi Bertrands, Clos d’Ora og þar stefnir hann ennþá hærra. Clos d’Ora er ætlað að skipa sér sess meðal bestu vínhúsa Frakklands og verða fyrsta „grand cru“ Suður-Frakklands.

Það var árið 1997 sem að Bertrand rakst á þessa ekru skammt frá þorpinu La Liviniére, besta undirsvæði Minervois. Þegar maður kemur þangað skilur maður hvers vegna þessi dalur hefur heillað. Þarna um fjörutíu kílómetra inn í land frá Miðjarðarhafinu er þessi vin, ekra með allt að áttatíu ára gömlum vínvið,  umlukin eikarlundum, furulundum og ólífulundum. Kyrrðin er algjör og maður fyllist lotningu yfir  fegurð náttúrunnar. En þarna á þessum níu hektörum af gömlum vínvið er ekki bara það sem maður sér, undir yfirborðinu er að finna einstaka jarðvegsblöndu, kalkstein,  sandstein og fleiri steintegundir sem í samspili við loftslagið.

Þarna byggði Bertrand upp lítið vínhús í fullkomnu samspili við náttúruna, nútímalegt, svolítið asískt í yfibragði, allt í feng-shui jafnvægi. Allt er gert til að raska ekki jafnvægi náttúrunnar, ræktunin er lífefld og jafnmikið lagt í víngerðina og hjá bestu grand cru húsum Frakklands.

Allt gerðist þetta án þess að nær nokkur maður hjá fyrirtækinu sjálfu vissi af því, þetta var leyndarmálið hans Bertrands sem var loks afhjúpað í kringum uppskeru síðasta árs en þá var hulunni svipt af fyrsta árganginum af Clos d’Ora, árganginum 2012. Verðmiðinn? Um 190 evrur eða rétt tæpar 30 þúsund krónur…á flösku.

Vínótekið var meðal þeirra fyrstu sem fengu að heimsækja Clos d’Ora í tengslum við uppskeruna síðastliðið haust og má sjá smá brot af þeirri heimsókn í myndbandinu hér fyrir neðan.

[embedplusvideo height=“367″ width=“600″ editlink=“http://bit.ly/1BRu8Bu“ standard=“http://www.youtube.com/v/-B9Zks4Yas4?fs=1&vq=hd720″ vars=“ytid=-B9Zks4Yas4&width=600&height=367&start=&stop=&rs=w&hd=1&autoplay=0&react=1&chapters=&notes=“ id=“ep7045″ /]
Deila.