Bobal á fornum slóðum

Utiel-Requena er kannski ekki meðal þeirra víngerðarsvæða sem fyrst skjótast upp í hugann þegar hugsað er um Spán en það á engu að síður nær þrjú þúsund ára sögu sem víngerðarhérað. Á síðustu árum hafa fornleifafræðingar grafið upp fjölmargar minjar um hina fornu víngerð og ekki síst fornar vínpressur eða „pilillas“ sem hafa verið hoggnar inn í steininn í fjöllunum .Þessar merkju minjar um víngerð fyrri tíma, þær elstu sem vitað er um á Spáni, eru nú komnar á heimsminjaskrá menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Í dag eru þrúgur ræktaðar á um 35 þúsund hekturum og í Utiel-Requena er að finna um eitt hundrað vínhús. Margir bændur vinna einungis við sjálfa vínræktina og selja þrúgur sínar og alls eru það því um sex þúsund fjölskyldur á svæðinu sem hafa lifibrauð sitt af víngerðinni.

Ekrurnar eru nokkuð inn í landi í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli og loftslagið því milt. Ein helsta sérstaða héraðsins er hins vegar meginþrúgan sem heitir Bobal. Hana má svo sem finna víðar á Spáni en yfirleitt er hún notuð í blöndur með öðrum vínum til að gefa lit og krat. Í Utiel-Requena er hún hins vegar ríkjandi, hefur verið ræktuð á svæðinu frá því á miðöldum og þrír fjórðu af öllum þrúgum sem ræktaðra eru á svæðinu eru Bobal en einnig er eitthvað ræktað af hvítu þrúgunni Macabeo (Viura).

Töluverð vakning hefur orðið á síðustu árum með yngri kynslóðum og á spænsku vínsýningunni Fenavin sem nýlega var haldin í borginni Ciudad Real gafst tækifæri til að kynna sér þróunina. Meðal þeirra sem ég hitti vare Noemi Arroyo Perez, sem er glæsilegur fulltrúi þeirrar kynslóðar. Þessi unga kona, sem rekur víngerðina Maia Venci, var einungis fjórtán ára gömul þegar að hún ákvað að leggja víngerð fyrir sig. Vínrækt á sér langa hefð í fjölskyldunni en hún var sú af systrunum fjórum sem að sýndi því mestan áhuga að leggja þetta fyrir sig. Hún segir það ekki síst hafa verið móður hennar sem að hvatti hana til að halda til útlanda og mennta sig á því sviði. Faðir hennar væri vissulega stoltur af dótturinni en ætti stundum í smá erfiðleikum og hefði í upphafi haft áhyggjur af því að þetta væri of mikill karlaheimur sem að dóttirinn ætlaði að hasla sér völl í.

Noemi fer aðrar leiðir en fyrri kynslóðir, hún leggur ríka áherslu á að endurspegla svæðið, náttúruna eða það sem Frakkar kalla terroir í vínunum. Áherslan er á litla uppskeru á hektara  og nota einungis bestu þrúgurnar til að ná fram dýpri vínum og það á faðirinn stundum svolítið erfitt með að útskýra þegar að hann hittir vini sína á þorpskránni. Hvers vegna í ósköpunum er dóttir hans að henda þrúgum?

„Ég er mjög kresinn en það skilja sumir kallarnir ekki,“ segir Noemi. Vín hennar hafa vakið verulega athygli t.d. hið frábæra Xuperio Rustico, auðvitað hreint Bobal. „Ég hefði aldrei náð svona langt ef ég hefði ekki mikið sjálfstraust. Ég vil ná fram hinu sanna bragði svæðisins í vínunum,“ segir hún.

Á Fenavin gafst færi á að smakka góðan þverskurð af vínum svæðisins og þar kom greinilega í ljós hversu margar ólíkar myndir Bobal þrúgan getur tekið á sig. José Luis Robredo, forseti Consejo Regulador, samtaka víngerðarmanna á svæðinu segist líta framtíð svæðisins björtum augum. „Þetta er demantur sem við eigum í Bobal. Svæðið er nú að tæknivæðast í víngerðinni og við erum sannfærð um að framtíðin verði björt.

Alls voru á síðasta ári um 80% af framleiðslu héraðsins flutt út til annarra ríkja og eru stærstu markaðirnir Frakkland, Belgía og Þýskaland.

Deila.