Grillað brauð – Píta

Grillað brauð er skemmtilegt meðlæti með grillmatnum. Svona brauð hafa verið elduð yfir eldi frá örófi alda og eru náskyld t.d. pítubrauðunum í Mið-Austurlöndum og naan-brauðum Indlands. Það má hlaða ýmsu á brauðið, olíu, pizzasósu og osti svo dæmi sé tekið, eða þá bera það fram hreint til að maula með matnum eða til að moka upp hummus eða öðru góðgæti.

  • 5 dl hveiti (og auka til að hnoða)
  • 2 dl volgt vatn
  • 1/2 bréf þurrger
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk sykur
  • 1 msk olía

Hrærið gerið, sykur, oliu og salt saman við volgt vatn og leyfið að standa í 5-10 mínútur eða þar til að vatnið fer að „freyða“. Hrærið gerblönduna og hveitið vel saman. Leyfið deiginu að hefa sig í 2-3 klukkustundir.

Setjið hveiti á vinnuflötinn og hnoðið deigið hressilega. Skerið í 4-6 bita og hnoðið hvern bita fyrir sig í kúllu. Leyfið kúlunum að standa undir viskustykki í smá stund og hefa sig upp aftur.

Fletjið kúlurnar út í flatböku með því að þrýsta á þær með höndunum. Auðvitað er líka hægt að gera þetta með kökukefli.

grillbraud

Hitið grillið vel. Setjið brauðin á grillið eitt og eitt eða tvö og tvö í einu, allt eftir því hvað þau (og grillið) eru stór. Fylgist vel með þeim þannig að þau brenni ekki. Þegar þau eru orðin stökk, það tekur kannski 2-3 mínútur, er þeim snúið við og brauðin bökuð áfram í altl að 2 mínútur enn. Takið af grillinu og setjið næstu brauð á. Það má smyrja þau með ólífuolíu áður en þau eru grilluð og ekki er verra að hafa heimatilbúna hvítlauksolíu.

 

Deila.