Mexíkóskt maíssalat

Þetta maíssalat er í anda mexíkóskrar matargerðar og er frábært með til dæmis grilluðum kjúkling. Maískornin er ristuðu á pönnu áður en þeim er blandað saman við dressinguna sem gefur þeim meira bragð. Það er um að gera að nota fersku maísstönglana sem má finna í flestum betri verslunum en það er auðvitað líka hægt að nota frosin maís.

  • 4 maísstangir
  • 3 msk af heimatilbúnu majonnesi
  • 1 rauðlaukur, saxaður fínt
  • 1 lúka af fínt söxuðum kóríander
  • pressaður safi úr einni límónu
  • 1 rauður chilibelgur, fræhreinsaður og saxaður mjög fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 3 matskeiðar eða svo af festaosti af fetakubbi, myljið

Byrjið á því að forelda maísstönglana. Það er hægt að gera á grilli eða með því að stinga þeim í um 20 mínútur inn í 200 gráðu heitan ofn. Leyfið þeim að kólna aðeins, hreinsið þá vel utan að þeim. Næsta skref er að skafa maískornin af stönglunum með því að renna hníf niður eftir stönglunum.

Hitið olíu og smá smjör á pönnu og steikið maískornin þar til að þau fara að taka á sig lit, 5-10 mínútur. Þegar hluti af kornunum er farinn að dökkna aðeins er pannan tekin af hitanum. Bragðið til með salti og pipar.

Blandið saman majonnesi, rauðlauk, hvítlauk, kóríander, chili, fetaosti og lime-safa. Það má gera aðeins á undan og gott er að geyma skálina í ísskáp í klukkustund eða svo til að leyfa brögðunum að renna vel saman.

Þegar steiktu maískornin hafa kólnað aðeins á pönnunni, þau eiga þó enn að vera vel volg, er þeim blandað saman við dressinguna í skálinni. Berið strax fram.

Fleira gott meðlæti með grillmatnum finnið þið með því að smella hér.

Deila.