Vín á Enoteca Bergsson

Í tilefni af útgáfu bókarinnar, Vín, umhverfis jörðina á 110 flöskum, efndi höfundurinn, Steingrímur Sigurgeirsson til veislu í samstarfi við fyrrverandi forseta vínþjónasamtaka Íslands Ólaf Örn Ólafsson á Bergsson RE í húsi Sjávarklasans.

Þema kvöldsins var ítölsk trattoria og elduðu þeir félagar klassískan ítalskan sveitamat með stórkóstlegum ítölskum vínum fyrir tæplega fimmtíu gesti. Byrjað var á margbreytilegu antipasti, ostum, pylsum og skinku áður en haldið var í primi, pasta með humri og rækjum ásamt hægelduðum kirsuberjatómötum í hvítlauk, ólífuolíu og kryddjurtum. Aðalrétturinn eða secondi var ítölsk stórsteik, Fiorentina. Nautahryggur á beini, hægeldaður og borinn fram með spínati, heimatilbúnu ricotta og ristuðum furuhnetum. Í eftirrétt eða dolce að sjálfsögðu heimsins besta Tiramisu.

 

Vínin voru ekki af verri endanum. Byrjað var á einu besta freyðivíni þeirra Ítala, Ferrari Maximum Brut, hvítvínið var Grecante frá einum virtasta vínhúsi Ítalíu, Arnaldo-Caprai í Úmbríu. Rauðvínið var óneitanlega hápunktur kvöldsins. Brunello di Montalcino 2010 frá Il Poggione. Vín sem á dögunum var valið fjórða besta vín ársins á lista Wine Specatator yfir 100 bestu vín ársins og hefur þar að auki fengið 98 punkta hjá Robert Parker. Með eftirréttinum sætur Recioto frá einu besta vínhúsi Veneto, Pieropan.

Deila.