Hallveig bloggar: Langbesti bringubitinn

Ég og fjölskyldan erum gríðarhrifin af slow food og besti maturinn sem ég elda er hæg-eldaður. Ég hef hæg-eldað nautasteikur í mörg ár, en þá hef ég verið með kjötið í ofninum á 60°hita og hef haldið því rauðu í kjarnann, enda eldað steikur eins og lundir og rib-eye á þennan hátt. Ég hef aftur á móti eldað lamb og svín þannig að kjötið sé mauksoðið, sem hefur alltaf heppnast vel. Ég varð því mjög spennt þegar ég frétti af því að nú fengist hér á landi nautavöðvi sem hentaði í slíka eldamennsku, hið margfræga brisket, nautabringa, sem við þekkjum úr sjónvarpsþáttum þar sem gyðingar elda fyrir stórhátíðir.

Bringuna fékk ég í frábærri nýrri búð úti á Granda, Matarbúrinu. Þessi búð er rekin af höfðingjunum sem eiga og reka nautabúið Háls í Kjós, sem ég hef stundum verslað við þegar ég hef átt leið um Hvalfjörðinn. Það er því heldur betur hvalreki (get it?)  þegar þau heiðurshjón opnuðu stað í bænum. Þar er hægt að kaupa alla mögulega og ómögulega parta af nautinu, þar á meðal þessa „ómerkilegri“ vöðva, eins og bringuna og kinnarnar sem henta einmitt vel í langsuðu.

ATHUGIÐ að þessi uppskrift þarf að minnsta kosti 6 tíma!

Besta leiðin til að elda svona kjöt er að láta rauðvín koma við sögu. Ég gúgglaði því uppskriftir og fann frábæra uppskrift hjá félögum minum, the Hairy bikers sem eru sjónvarpskokkar í Bretlandi. Í alvöru, hverjum geturðu frekar treyst fyrir svona alvöru comfort food en mönnum sem kallast „hárugu mótorhjólagaurarnir“? Það er skemmst frá að segja að maturinn var GUÐDÓMLEGUR, ég bar hann fram með kartöflustöppunni góðu sem finnst hér.

En hér kemur uppskriftin af vínsoðnu nautabringunni, staðfærð frá hárugu vinum mínum í Bretlandi:

Innihald:

 • 1.2-1.4 kg nautabringa (fæst í Matarbúrinu, eða sérpöntuð frá flestum kjötbúðum/borðum)
 • Maldon salt og nýmalaður pipar
 • 4-5 msk góð olía
 • 4 laukar
 • 3 greinar timian (hér mætti eins nota 1 tsk þurrkað)
 • 1 stórt lárviðarlauf
 • 2 msk tómatpúrra
 • 500 ml sjóðandi vatn og einn teningur nautakraftur
 • 200 ml kröftugt rauðvín
 • 5 gulrætur, skornar í grófa bita, 3 cm breiða
 • 5 stilkar sellerí, gróft sneitt í 4 cm bita

Aðferð:

Eins og alltaf er best að kjötið sé við stofuhita þegar eldamennskan byrjar. Byrjið á að kveikja á ofninum á 160 gráðum og takið til góðan ofnþolinn pott með þéttu loki. Steypujárnspottar henta einkar vel í svona eldamennsku. Hitið tvær matskeiðar af olíu í pottinum. Bindið kjötið upp í hæfilegan köggul, saltið og piprið ríflega og brúnið við meðalhita á öllum köntum, þetta tekur um 8-10 mínútur með reglulegum snúningum.

Á meðan kjötið brúnast þarf að taka tvo af laukunum og sneiða fremur þunnt. Þegar kjötið er tilbúið þarf að taka það uppúr og setja til hliðar. Þá er laukurinn steiktur við fyrrnefndan meðalhita í um það bil 5 mínútur, svo hann brúnist lítillega, en passið að hann brenni ekki við, bætið við olíu ef þarf.

Á meðan laukurinn mallar þarf að sjóða vatn og leysa upp teninginn. Bætið því næst tómatpúrrunni við soðið.

Þegar laukurinn er tilbúinn er timianinu og lárviðarlaufinu bætt við og steikt áfram í hálfa mínútu. Kjötinu er svo bætt út í pottinn og soðinu hellt yfir. Bætið því næst víninu við, setjið lokið á pottinn, hitið að suðu og færið hann inn í ofninn þegar byrjar að sjóða.

Kjötið mallar nú í 3 klukkutíma í ofninum, best er að snúa því einu sinni á meðan, eftir 1 og hálfan tíma. Kjötið er enn mjög stíft þegar því er snúið, en það mun breytast.

Þegar líður að lokum þessa tíma þarf að huga að grænmetinu. Skerið seinni tvo laukana í helming og hvern helming í fernt og steikið á þykkbotna pönnu í afgangnum af olíunni í um það bil 5 mínútur. Skerið á meðan gulræturnar og selleriið, bætið því á pönnuna og steikið áfram í aðrar 5 mínútur.

Þegar 3 tímar eru liðnir, takið þá pottinn út og athugið hvort kjötið sé ekki farið að gefa töluvert eftir. Ef það er enn jafnstíft og þegar því var snúið er best að gefa því hálftíma í viðbót áður en grænmetið er sett saman við. Setjið annars grænmetið strax saman við og snúið kjötinu aftur í pottinum. Það fær svo að malla áfram í 1-2 tíma, eða þar til það er orðið lungamjúkt.

Þegar maturinn er tilbúinn er kjötið fært upp á fat, snærið skorið af, bringan skorin í sneiðar þvert á þræðina í kjötinu og sósunni svo dreift yfir.

Með þessu drukkum við Alamos Malbec. Það passaði ægilega vel með.

Ég hef það svo fyrir víst að maturinn sé enn betri á morgun. Ég hlakka til!

Hér er svo uppskriftin af hárugu mótorhjólakúnni!

Deila.