Umhverfis Fiskfélagið

Það hefur verið gífurlega ör þróun í veitingahúsalífinu síðustu árin ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna og almennt batnandi árferðis. Út um alla borg – eða að minnsta kosti miðborg – spretta upp ný veitingahús. Þetta gerir að verkum að staður á borð við Fiskifélagið í gamla Zimsen-húsinu í Grófinni, sem opnaði fyrir innan við áratug, er orðinn allt að því klassískur.

Eitt helsta einkenni Fiskfélagsins frá upphafi er Heimsreisan svokallaða, samsettur seðill þar sem hver réttur er tilbrigði við eitthvert land og nýtir hráefni eða aðferð sem er dæmigert fyrir það. Þau eru orðin ansi mörg löndin sem tekin hafa verið í heimsreisuna og  margar af uppskriftum Lárusar Gunnars Jónassonar er að finna í matreiðslubók sem kom út 2014.

Þessa dagana er líka boðið boðið upp á sérstakan matseðil þar sem er að finna hápunkta eða „best of“ þeirra rétta sem í boði hafa verið og ráða vinsældir réttanna annars vegar og það hversu eldhúsið er hrifið af þeim valinu á réttunum á seðilinn.

Þarna eru gamalkunni réttir fyrir þá sem fylgst hafa með Fiskfélaginu í gegnum tíðina svo humar með rabarbara sem var á fyrsta matseðli veitingahússins.

„Umhverfis Fiskfélagið“-seðillinn er sjö rétta. Fyrsti rétturinn kemur á diski fyrir hvern og einn, síðan koma þrír réttir sem að borðið deilir á milli sín, Aðalrétturinn kemur á diski fyrir hvern og einn og sömuleiðis eftirrétturinn. Og eins og alir góðir svona seðlar þá fer þessi af stað með látum. Fyrsti rétturinn er einn sá besti á seðlinum, rúlluð blálanga, kennd við Noreg meðperum og valhnetum í ýmsum myndum. Þetta er flott samsetning, fjölbreytt, frumleg og allt fellur vel hvert að öðru. Við völdum með þessu Petit Chablis frá Simonnet sem spilaði vel með fiskinum og ef eitthvað er enn betur með þeim réttum sem á eftir komu, ekki síst humrinum með gulrótum og rabarbara. Hann var kenndur við Ísland en bleikjan sem þarna kom líka við Kirkjubæjarklaustur og túnfiskurinn við Malaysíu.

Allir eru réttirnir margslungnir, Þetta eru allt flóknir diskar, svolitið gáskafullir, þar sem brögðum og áferð er stefnt saman, stundum með virkilega flottum árangri eins og með súrusnjónum og brennivínseggjasósunni sem lyfta upp humarréttinum. Brögðin eru aldrei yfirgnæfandi, það er málað með mildum og mjúkum tónum á diskana.

Á eftir þessari þrennu kom ribeye-steik dulbúin sem hamborgari, fyrirtaks útfærsla þar sem leikið er við hamborgarastefið í hverju hráefni á diskinum. Hér var farið yfir í kraftmikið rauðvínið, Casa Concha Merlot frá Chil, tökkt og mikið sem hélt vel í við bragðmikinn réttinn.

Að endingu loks „Suðurskautslandið“, kökubotn og hvítt súkkulaði, snjór og vetur.

 

Deila.