Perlu-kúskús með furuhnetum og steinselju

Perlu-kúskús er hráefni sem hefur ekki verið algengt í íslenskum eldhúsum en er einstaklega skemmtilegt að nota. Þetta risavaxna „couscous“ er algent í miðausturlöndum þar sem það er kallað mograbieh. Það er mjög áþekkt hinu sardiníska „fregola“ sem við höfum stundum notað í uppskriftum.  Perlu-kúskús er líka náskylt því sem er kallað ísraelskt kúskús eða ptitim á hebresku, pasta sem var þróað fram þar í landi á sjötta áratug síðasta aldar þegar að hrísgrjón voru af skornum skammti. Perlu-kúskús er stundum fáanlegt í stórmörkuðum og við fundum það í Istanbul-Market í Ármúlanum.

En hér kemur uppskriftin að perlu-kúskús með furuhnetum, steinselju og sítrónuberki sem er unaðslegt meðlæti með grilluðum fiski eða kjúkling.

 • 5 dl perlu-kúskús
 • 7 dl vatn + góður kjúklingakraftur (eða kjúklingasoð)
 • 1 laukur, saxaður
 • 2-3 hvítlauksrif, söxuð
 • 3 dl furuhnetur, þurristaðar
 • 2 dl rúsínur
 • rifinn börkur af einni sítrónu
 • 1 búnt (helst flatlaufa) steinselja, söxuð
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • kanilstöng
 • 2 lárviðarlauf
 • sjávarsalt
 • smjör og olía

Þurristið furuhneturnar. Saxið steinseljuna. Rífið börkinn af sítrónunni. Geymið.

Hitið smjör og olíu saman á pönnu. Byrjið á því að mýkja laukinn í 3-4 mínútur ásamt chiliflögunum, hvítlauk, kanilstönginni og lárviðarlaufum. Bætið perlu-kúskús út á og veltið um í nokkrar mínútur eða þar til að kúskúsið byrjar að taka á sig örlítinn lit. Þá er vatningu og kjúklingakraftinum bætt saman við og þessu leyft að malla saman á vægum hita í 10-15 mínútur eða þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp og kúskúsið er farið að mýkjast (það á þó að vera örlítð fast undir tönn – það sem Ítalir kalla al dente).

Takið kanilstöngina og lárviðarlaufin úr. Blandið furuhnetum, rúsínum, steinselju og sítrónuberki saman við. Bragðið til með salti ef þarf.

Berið fram með t.d. grilluðum laxi eða kjúklingi og arabískri jógúrtsósu.

Uppskriftir þar sem við notum fregola má finna hér en það er allt eins hægt að nota perlu-kúskús, enda nokkurn veginn sami hluturinn.

.

 

Deila.