Freyðandi vín til að kveðja 2016

Þá líður að áramótunum eina ferðina enn með öllum þeim hefðum sem því tilheyra. Það tengjast mismunandi hefðir áramótunum út um allan heim. Hér eru líklega flugeldar og áramótaskaup það fyrsta sem kemur upp í huga flestra. Ef eitthvað tengir hins vegar veisluhöld um áramót sameiginlegum böndum, að minnsta kosti á Vesturlöndum, þá er það sú hefð að skála fyrir liðnu ári og ekki síður nýju ári í glasi af góðu kampavíni.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir öll freyðandi vín. Þetta sýnir kannski best hversu vel markaðssetning vínbændanna í Champagne hefur tekist í gegnum aldirnar. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Champagne er hérað í norðurhluta Frakklands, austur af París og eru víngerðarsvæðin í kringum hina sögufrægu borg Reims. Þar og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði.

Hin einu sönnu kampavín koma frá Champagne í norðurhluta Frakklands á svæðinu í kringum borgina Reims. Mörg ágætis kampavín eru í boði í vínbúðunum til dæmis klassikerar frá kampavínhúsum. Þar má nefna kampavín á borð við þurra Veuve-Clicquot Brut og hið örlítið sæta Mumm Demi Sec eða þá  nýliðana (eða maður ætti kannski frekar að segja vín sem átta hafa endurkomu) í hillum vínbúðana Pol Roger og Nicolas Feuillatte, bæði Brut. Það síðastnefnda hefur einmitt glatt gesti á Kitchen & WIne á 101 hótel  á sérstöku kampavíns-happy hour tilboði á aðventunni.  Hvert hús hefur sinn stíl en allt eru þetta pottþétt og góð kampavín. Og svo er auðvitað alltaf eitthvað extra flott að fá rósakampavín, eins og hið glæsilega Veuve-Clicuot Rosé Brut. Ekki spillir fyrir að verð margra kampavína hefur lækkað um þúsundkall eða svo frá síðasta ári vegna hagstæðara gengis.

Kampavínin eru lúxusvara og verðið eftir því. Sem betur fer eru hins vegar einnig framleitt virkilega vönduð freyðivín víða um heim hvort sem er hjá bændunum í Bailly í næstu sveit við Champagne eða hinum megin á hnettinum í Ástralíu hjá vínhúsum á borð við Jacob’s Creek. Við smökkuðum líka nýlega ansi hreint prýðilegt Crémant frá Alsace sem heitir Anne de Laweiss og einnig er til Demi Sec Crémant frá sama vínhúsi, vínsamlaginu í Bergheim.

Ítalir eru lika ansi lunknir í gerð freyðivína. Prosecco-vínin eins og nýlega kom til dæmis nýtt Prosecco í búðirnar sem heitir Lamarca sem kostar 1.899 og hefur verið eitt allra vinsælasta Prosecco-vínið í Bandaríkjunum árið. Fyrir þá sem vilja fara alla leið í Prosecco og fá hann eins góðan og mögulegt er þá er málið að prófa Nino Franco Rustico sem kostar 2.590 krónur. Og svo má ekki gleyma hinu magnaða svæði Franciacorta, en eitt besta freyðivínið sem fáanlegt er í búðunum kemur frá vínhúsinu Barone Pizzini.

Deila.