Spánverjar eru meðal þeirra þjóða sem borða hvað mest af þorski þótt yfirleitt sé hann ekki ferskur heldur í formi saltfisks eða bacalao. Í þessari uppskrift er sótt í smiðju spænsku matargerðarinnar þótt við bætum líka við smá ítölsku kryddjurtamauki eða Gremolata til að hafa með. Við notum ferskan þorsk í uppskriftina en það er líka hægt að nota vel útvatnaðan saltfisk ef þið fáið góða þykka bita.
- 800 g þorskur
- 1 laukur, saxaður
- 3-4 hvítlauks geirar, fínt saxaðir
- 1 vænta lúka fínsöxuð flatlaufa steinselja
- 1 dós Cannellini baunir
- 1 dós grillaðar paprikur
- 1-2 dl svartar ólífur, steinlausar
- safi úr einni sítrónu
- 2-3 rósmarínstönglar eða 1-2 tsk þurrkað rósmarín
- reykt paprika
- chili-flögur
- ólífuolía
- sjávarsalt og nýmulinn pipar
Blandið söxuðum lauk, hvítlauk, steinselju, reyktri papriku, rósmarín, og ólífum saman við Cannellini-baunirnar í ofnföstu fati. Hellið sítrónusafa og ólífuolíu yfir. Bætið góðri klípu af chiliflögum saman við, saltið og piprið.
Skerið þorskinn í bita. Veltið upp úr smá ólífuolíu og kryddið með reyktri papriku, saltið og piprið. Leggið bitana ofan á baunirnar.
Eldið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur. Berið fram með Gremolata.
Gremolata
Gremolata gerum við með því að blanda saman 4 msk af fínt saxaðri flatlaufa steinselju, rifnum berki af einni sítrónu og 2 rifnum hvítlauksgeirum. Blandið saman í skál, saltið og piprið. Þið getið líka bætt 1-2 tsk af kapers saman við ef vill.
Með þessum rétti er spænskt Albarino-vín algjörlega fullkomið, t.d. Benito Santos Eo eða Pazo Senorans.