Toppvín eru ilmvatnsframleiðsla

Íslendingar eru ekki fyrirferðarmiklir í hópi víngerðarmanna og líklega er Höskuldur Hauksson sá eini sem hefur það að fullri atvinnu í dag að reka vínhús og gera vín. Vínhúsið heitir að sjálfsögðu Hauksson og er með ekrur í þorpunum Remigen og Gordemo. Í Remigen  í norðurhluta Alpanna ræktar Höskuldur eða „Hoss“ eins og hann er kallaður í Sviss  Pinot Noir, Muller-Thurgau og Riesling og í Gordemo  í suðurhluta Alpanna fyrst og fremst Merlot-þrúgur.

„Ég byrjaði að fikta við víngerð strax í háskóla á Íslandi, gerði krækiberjavín sem reyndist vera ódrekkandi. Sú tilraun endaði með því að lögurinn var eimaður og haldið gott partý. Í framhaldinu flutti ég til Kaliforníu  í doktorsnám í stærðfræði og fór mikið að sniglast í kringum þennan geira sem neytandi og lærði þar virkilega að meta góð vín.“ Höskuldur vann um árabil í fjármálageiranum og var m.a. framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Straumi.  Eiginkona hans er svissnesk og árið 2008  fluttu þau  búferlum til Sviss.  „Mér fannst gaman að vinna í fjármálageiranum, það var krefjandi og spennandi vettvangir en mig vantaði samt eitthvað. Það sem er frábært við að starfa á ekrunni er þetta líkamlega, tengslin við náttúruna,“ segir Höskuldur.

Fljótlega eftir að þau fluttu til Sviss segist Höskuldu hafa farið að leita uppi góð svissnesk vín. Hann hafði heyrt af þeim en ekki rekist á þau fyrr en að hann settist að í Sviss og gerði að þeim markvissa leit.

„Ég fann nokkra toppframleiðendur og byraði að reyna að selja bestu vínin fyrir þá. Það má segja að þar hafi snjóbolti byrjað að rúlla sem vatt sífellt upp á sig.“ Árið 2013 keypti Höskuldur eitt tonn af Pinot Noir-þrúgum og gerði sína fyrstu atlögu að víngerðinni. Skömmu síðar eða árið 2015 tók hann við sinni fyrstu ekru í bænum Gordemo í suðurhluta Sviss.  Á ekrunni sem er með útsýni yfir vatnið Lago Maggiore var gamall Merlot-vínviður og hann hefur því til viðbótar plantað þar Cabernet Franc. Í fyrra tók hann við annarri ekru í norðurhluta Sviss, sú er tæpir tveir hektarar og árið 2019 munu þrír hektarar til viðbótar bætast við. Þegar þær verða komnar í gagnið verða hektararnir orðnir sex talsins og framleiðslugetan nær 35-40 þúsund flöskum af ári af eigin ekrum.

„Ég er enn að prófa mig áfram og hef verið að skipta svolítið um tegundir. Ég ætlaði til dæmis að skipta út Kerner en þau vín hafa hins vegar fengið frábær viðbrögð í smökkunum á Íslandi og því ekki víst að verði af því.  Ég vil bæta við mig í Riesling ,Chardonnay og Malbec. Þær þrúgur fæ ég á nýju ekrunni.  Þetta verður svolítið flókin „portfolio“ eða ellefu sortir og ég ætla að reyna að einfalda niður í um fimm sortir til að fá hreinni línu af vínum.“

„Ég hef verið ófeiminn að spyrja heimskulegra spurninga þegar að ég hitti fólk í þessum bransa. Stundum fæ é svör. Ég hef hins vegar ekki verið með neinn læriföður eða hægri hönd.“ Þegar Höskuldur er spurður hvort að hann hafi einhverja fyrirmynd þegar að hann gerir vínin segir hann að fyrir ári hefði hann líklega nefnt franska víngerð. Núna myndi hann líklega nefna ilmvantsgerðarmanninn.  „Síðastliðið haust þá áttaði ég mig á að þegar að ég var að njóta uppáhaldsvínanna minna eyddi ég um 90% af tíma til að þefa af þeim. Það sem ég reyni að gera er því  nær því að framleiða drykkjarhæft ilmvatn frekar en matarvín. Það er í sjálfu sér lítið mál að gera þokkalegt matarvín. Toppvín eru ilmvatnsframleiðsla.“

Bestu vínin og þau sem eru mest auðkennandi fyrir húsið eru þau rauðu, Pinot Noir og Merlot. Pinot Noir-vínið hefur til að mynda fengið frábæra dóma í svissnesku vínpressunni. Víntímaritið Vinum gaf þannig í fyrra 2014 árganginum af Pinot Noir 17,5 punkta af 20.

Höskuldur hefur óneitanlega farið ótroðnar slóðir, annars vegar er það líklega vísindamaðurinn í dr. Höskuldi sem gerir það að verkum og hins vegar að hann kemur úr annarri átt en rótgrónir víngerðarmenn að viðfangsefninu. Hann hefur verið að prófa sig áfram í gegnum árin með mismunandi aðferðir. Nota mismunandi ger þar á meðal náttúruger, víngerjun við mismunandi hitastig og mismunandi ristaðar tunnur, en viðartunnur eru ávallt brenndar vel að innan áður en vínið fer í þær. Það hversu mikið þær eru brenndar ræður miklu um bragðið. Þeim mun meiri rist eða „toast“, þeim mun meiri áhrif hefur viðurinn. Hann hefur ekki heldur haldið sig við eikina einvörðungu eins og flestir gera heldur hefur líka prófað að hafa hluta framleiðslunnar í kastaníuvið.

Þá hefur hann þróað fram algjörlega nýjar aðferðir. Hann notar  sérstakt kælirör ofan á gerjunartankinum til að þétta vökvann sem gufar upp við gerjunina og ná aftur til baka dropunum af ilmríku víni sem eru svo mikilvægir fyrir hvítvínin. Í rauðvíni hefur hann gert tilraunir við að þurrka hluta af þrúgunum. Ekki með vindþurrkun eins og í Valpolicella við gerð Amarone heldur í sérstökum þurrkofni sem notaður hafðið verið undir peruþurrkun. Þar hefur um tíu prósent af þrúgunum verið þurrkaður áður en þær fara út í vínlöginn með fersku þrúgunum.

Hann er líka að fikra sig áfram með framleiðslu á grappa og horfir þar ekki bara til Ítalíu heldur einnig til Kentucky og litlu Bourbon-húsanna sem gera ótrúlega bragðmikil viský. Þau rista oft tunnurnar í botn og hefur Höskuldur fylgt þeirri hugmyndafræði í grappatilraunum sínum.

Svissnesk vín eru nær eingöngu seld á heimamarkaði og útflutningur er mjög lítill. Höskuldur er hins vegar spenntari fyrir því að selja vínin sín víðar og horfir þá ekki síst til Norðurlanda og London. Hann hefur sett á laggirnar sérstakan vínklúbb fyrir Íslendinga og Svisslendinga þar sem hægt er að skrá sig fyrir kaupum á víni og verða þau send í stórum sendingum, einu sinni á ári til að byrja með til að ná hagkvæmari flutningskostnaði.

Áhugasamir geta farið inn á heimasíðu vínhússins haukssonwine.com og skráð sig þar í klúbbinn.

Deila.