Bibi Graetz Grilli 2016

Bibi Graetz er víngerðarmaður í Toskana á Ítalíu sem hefur vakið mikla athygli á meðal víngerðarmanna á síðustu árum. Hann er ekkert að nota alþjóðlegar þrúgur heldur einbeitir sér að hinum upprunalegu þrúgum héraðsins á borð við Sangiovese og Canaiolo í rauðvínum og Graetz fjölskyldan er hins vegar langt í frá rótgróin ítölsk víngerðarfjölskylda. Móðir hans er norsk og faðir hans ísraelskur en þau gerðu Toskana að heimili sínu og keyptu þar kastala skammt frá Flórens, Castello di Vincigliata þar sem Bibi ólst upp og hóf með árunum listnám í Flórens og útskrifaðist úr myndlist í frá Academia della Belle Arti.

Samhliða listnáminu óx áhugi Bibi á vínum og upp úr aldamótum ákvað hann að hefja sjálfur víngerð úr þrúgunum sem ræktaðar voru á fjölskylduekrunum en höfðu fram að því verið seldar öðrum framleiðendum. Hann leggur mikið upp úr gömlum vínvið og vínin eru nú eftirsótt um allan heim þótt flöskurnar sem framleiddar eru séu ekki margar. Bibi fær svo útrás fyrir listamanninn í sér með því að mála myndirnar á flöskumiðunum.

Rauðvínið Grilli er  undantekningin hjá Graetz þegar kemur að þrúgunotkun, hér eru notaðar frönsku Bordeaux-þrúgurnar Cabernet Franc og Merlot ásamt Syra. Þetta er mikið og tignarlegt vín, dökkfjólublátt, með heitri angan af bláberjum, krækiberjum, sólberjasultu og plómum, nokkuð kryddað í munni, þurrkaðar kryddjurtir, þétt, massívt og mjúkt. Hörkuflott vín.

90%

2.690 krónur. Frábær kaup. Magnað vín á þessu verði. Gefið því góðan tíma til að opna sig, það margborgar sig.

  • 9
Deila.