Pecorino 2017

Umani-Ronchi er vínhús sem framleiðir hágæða vín frá héruðunum Marche og Abruzzo og einhverjir muna eflaust eftir vínum á borð við Pecorino og Cumaro, að maður tali nú ekki um Casal di Serra, sem hér voru til í búðunum fyrir rúmum áratug. Nú eru þessi vín aftur að berast hingað, sem er fagnaðarefni.

Pecorino er líkleg heiti sem flestir tengja við sauðaostinn Pecorino en þetta er líka heiti þrúgu sem eitt sinn var töluvert ræktuð við Adríahaf. Þessi „sauða-þrúga“ var nánast komin úr ræktun þegar að Umani Ronchi setti af stað verkefni árið 2005 er miðaði að því að endurheimta sígildar Adríahafsþrúgur á borð við Pecorino.

Pecorino er hið ágætasta vín. Það er fölgult á lit, mjög fersk angan og sítrusmikil, epli, gul og græn. Sýrumikið og ferskt, stílhreint, skarpt og glæsilegt. Matvænt.

80%

2.390 krónur. Frábær kaup. Með fersku sjávarfangi, skelfisk, sushi.

  • 8
Deila.