The Annual Icelandic Beer Festival 2019

Dagana 21-23. febrúar fer fram hin árlega „The Annual Icelandic Beer Festival“ á Ægisgarði eða Kex bjórhátíðin eins og hún kallast í daglegu máli. Síðan 2011 hefur Kex, núna undir nafninu Kex Brewing, haldið bjórhátíð sem ávallt hefur farið fram í kringum hið íslenska bjórafmæli, 1. mars. Á fyrstu árunum var um litla hátíð að ræða  þar sem einungis íslensk brugghús kynntu afurðir sínar fyrir gestum og gangandi á Kex Hostel en þá var ekki selt inn á viðburðin. Með árunum og bættri bjórmenningu dafnaði hátíðin og hefur farið stækkandi. Líklegast sló hátíðin öll met í fyrra í fjölda brugghúsa, gæði á bjór og fjölda gesta en hátíðin hefur veriði í mikilli sókn á síðustu árum.

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru svo sannarlega með puttann á púlsinum því undanfarin ár hefur hátíðin laðað að sér bestu brugghús heims eins og til dæmis Other Half frá New York, Cloudwater frá Bretlandi og J. Wakefield frá Miami svo eitthvað sé nefnt. Ofan á allan þann skara eru svo flest íslensku brugghúsin með sannkallaða uppskeruhátíð.

Það vantar ekki stóru nöfnin í ár. Það kemur ekki á óvart að sjá Mikkeller og To Øl meðal gesta en þessi þekktu dönsku brugghús hafa mætt síðastliðin 5 ár og er mikill vinskapur á milli Kex og þeirra. Það er einnig ákaflega ánægjulegt að sjá Other Half og J. Wakefield aftur meðal þátttakanda en þessi brugghús eru ein af allra vinsælustu og eftirsóttustu brugghúsum í heimi og slóu rækilega í gegn í fyrra en þetta er 3. árið í röð sem Other Half mætir á hátíðina. Það verður að teljast ansi gott þar sem þeir eru líklegast eitt allra besta brugghús í heiminum þegar kemur að hinum margrómaða bjórstíl „New England IPA“.

Það vekur einnig athygli að mikil áhersla er lögð á súr- og villta bjóra á þessari hátíð. Brugghús eins og Fonta Flora frá Norður Karólínu, de Garde frá Oregon og Black Project frá Colorado eru þar fremstir meðal jafningja og ein bestu brugghús Bandaríkjanna þegar kemur að súrbjórum.

Eitt stærsta nafnið í ár er að koma í fyrsta skipti á þessa hátíð en Tired Hands frá Ardmore í Pennsilvaníu hafa verið eitt eftirsóttasta brugghús Bandaríkjanna nánast frá stofnun brugghússins árið 2011. Vinsældir Tired Hands hafa verið ótrúlegar frá stofnun. Frá fyrsta ári í rekstri var stöðug röð í bjórinn og það má segja að sú röð hafi aldrei horfið. Jean Broillet IV eigandi og bruggari bruggar ekki bara eina eftirsóttustu IPA bjóra Bandaríkjanna heldur er brugghúsið margrómað fyrir heimsklassa „saison“ bjóra.

Bjórsenan í New York verður áberandi á þessari hátíð en 4 af bestu brugghúsum borgarinnar heimsækja hátíðina. Other Half, KCBC, Finback og Interboro eru öll á hátíðinni og munu eflast draga að sér mikinn fjölda gesta.

Það verður einnig að taka fram að þessi hátíð hefur verið einskonar árshátíð íslensku brugghúsana á síðustu árum og hefur hátíðin verið vettvangur nýjungagirni og frumlegheita. Borg hafa ávallt komið með eitthvað stórskemmtilegt og Vínotek hefur heimildir fyrir því að Malbygg muni koma rosalegt innlegg á þessa hátíð. Það má líka vænta þess að gestgjafarnir, Kex Brewing, verði með eitthvað afar áhugavert í boði. Einnig verður spennandi að sjá hvað RVK Brewing, Lady Brewing, Ölverk og Brothers Brewery koma með til leiks. Hátíðin er einnig einstakt tækifæri til að kynnast litlum brugghúsum sem erfitt er að nálgast öllu jafnan eins og til dæmis Mono, Smiðjan og Og Natura.

Það er því ekki eftir neinu að bíða til að tryggja sér miða á hátíðina en líklegt er að það seljist upp á næstu dögum eða vikum. Miða má nálgast á https://www.kexbrewing.is/taste-it

Meira verður fjallað um einstök brugghús og viðburði á hátíðinni á næstu dögum

 

Deila.