Napólí – á heimaslóðum pizzunnar

Ítalía er vinsæll áfangastaður Íslendinga en suðurhluti landsins er þó staður sem að margir eiga eftir að uppgötva. Við höfum áður fjallað um héraðið Púglía en það er ekki síður ástæða til að gefa Kampaníu gaum og þá ekki síst höfuðborg héraðsins Napólí. Í hugum margra eru fyrstu hugrenningartengslin þegar Napólí er nefnd líklega knattspyrnulið borgarinnar en einnig er ekki ólíklegt að kvikmyndir hafi áhrif á hugmyndir margra um borgina, hvort sem að það eru klassískar myndir á borð við It started in Naples með þeim Clark Gable og Sófíu Loren í aðalhlutverki, Eat Pray Love með Júlíu Roberts eða þá hin epíska Gomorrah þar sem glæpagengjum borgarinnar eru gerð skil.

Þekktasti íbúi Napólí í seinni tíð er einmitt Sofía Loren sem ólst upp við lítil efni í borginni eftir stríð en varð síðar einhver þekktasta kvikmyndastjarna veraldar og auðvitað heiðursborgari Napólí. Það má víða sjá tilvísanir til hennar, veitingahús eða hótel sem kenna sig við Sófíu. Hún var til dæmis fastagestur á Hotel Excelsior við Napólíflóann þegar hún var í borginni og á því fallega Belle Epoque-hóteli svífur andi hennar tíma enn yfir vötnunum og það má sannarlega mæla með því að sitja upp á þakbarnum, fá sér kokteil og horfa yfir flóann og upp til Vesúvíusar nú eða þá Capri.

Það þekkta eldfjall gaus með eftirminnilegum hætti árið 79 þegar að stór hluti byggðarinnar í kringum flóann fór undir hraun og ösku. Þekktasta dæmið er Pompeii borg sem stóð rétt suður af núverandi borgarstæði Napolí en grófst undir ösku ásamt nágrannaborginni Herculaneum. Mörgum öldum síðar var Pompeii grafin upp á ný og þar nú hægt að ganga um götur þessar ótrúlega heillegu rómversku borgar þar sem allt stöðvaðist einn afdrifaríkan dag fyrir tæpum tvöþúsund árum.

Annar vinsæll staður sem gott er að heimsækja út frá Napólí er Amalfi-ströndin, líklega frægasta strandlengja ítalíu. Þar teygja nokkur þorp sig upp í hlíðarnar, þekktust þeirra Positano, Sorrento og Praiano. Það er hins vegar ekki skynsamlegt að fara þangað akandi. Vegalengdir sem virðiast örstutt bæjarleið á korti verða að margra klukkustunda langri leið um ótrúlega hlykkjótta og mjóa vegi upp og niður hlíðarnar. Að auki er nær ómögulegt að aka um sjálf þorpin – hvað þá að leggja bíl. Það er betra að taka ferju frá Salerno, þær fara þó einungis yfir sumarmánuðina en rútur allt árið.

Napólí er auðvitað líka þekkt fyrir að vera sá staður sem gert getur tilkall til þess að eiga heiðurinn af einum frægasta rétti Ítalíu – pizzunni. Og það eru góðir pizza-staðir á hverju einasta horni og inn á milli frábærir pizzastaðir. Það er til dæmis ekki vitlaust að fá sér pizzu á Sorbillo í gamla bænum.

Þarna eru meira að segja starfrækt samtök sem heita Associazione Verace Pizza Napoletana (AVPN)  sem kenna hin réttu vinnubrögð við Napólípizzugerð og votta þá staði sem vilja. Þess má til gamans geta að pizzugerðarmeistararnir á Flatey fóru einmitt í miklar æfingabúðir til AVPN áður en ráðist var í opnun staðarins. Klassísk Napólí-pizza er auðvitað yfirleitt það sem við myndum kalla Margharita eða Marinara og að sjálfsögðu með San Daniele-tómötum og buffaló-mozzarella osti – en Kampanía er helsta framleiðslusvæði þeirra osta.

Og svo má ekki gleyma kaffinu, dökkt, bragðmikið og gott. Hvergi fær maður klassískara Napólí-kaffi en á Gran Caffé Gamrinus í gamla bænum og með því þarf auðvitað að fá sér Sfogliatella, horn úr örþunnu lagskiptu blaðdeigi og fyllingu eða þá súkkulaðibita af bestu súkkulaðigerð borgarinnar – Gay Odin.

 

Deila.