Museum Reserva 2015

Cigales er tiltölulega óþekkt víngerðarsvæði á hásléttunni norð-vestur af Madrid, eiginlega rétt norður af öllu þekktara víngerðarsvæði, Ribera del Duero. Það bar lengi lítið á Cigales, þarna voru fyrst og fremst mjög litlir framleiðendur sem seldu vín sín í nágrenninu. Þetta breyttist fyrir nokkrum árum þegar vínhúsið Baron de Ley í Rioja komst að þeirri niðurstöðu að þarna væru kjöraðstæður til fjárfestinga utan Rioja. Það sem ekki síst réði þessu vali Baron de Ley var aldur vínviðsins á ekrunum.

Museum Reserva er eitt af vínunum sem Baron de Ley framleiðir í Cigales. Þrúgan er Tempranillo (sama og er meginþrúga héraðanna Rioja og Ribera del Duero). Þrúgurnar eru ræktaðar á runnum sem eru að meðaltali 70 ára gamlir í 750 metra hæð yfir sjávarmáli og ræktunin er án áveitu (dry farming). Þetta gamall vínviður gefur af sér vín sem eru massív og mikil. Liturinn er svarrauður og djúpur og ávöxturinn í nefi dökkur og þroskaður, bláber, plómur og sólber. Eikin er áberandi, reykur og krydduð, vanilla og dökkt súkkulaði. Massað í munni, mjúk tannín, töluvert míneralískt. sýran fersk og þægileg.

90%

2.899 krónur. Frábær kaup. Með grilluðu rauðu kjöti. Með villibráð.

  • 9
Deila.