Zuccardi Torrontes Serie A 2022

Alberto Zuccardi var fyrstur til að hefja vínrækt í Maipú í Mendoza og fjölskyldan er einnig meðal frumkvöðlana í Uco. Barnabarnið Sebastian er nú við stjórnvölinn og áherslan er enn á að finna einstakar ekrur sem draga fram einkenni viðkomandi svæða. Þrúgurnar í þessu víni koma langt frá heimaslóðunum, nefnilega Salta nyrst í Argentínu.

Salta er eitthvert afskekktasta og hrjóstrugasta víngerðarsvæði veraldar. Þar að auki er nær hvergi hægt að finna ekrur sem liggja jafn hátt yfir sjávarmáli, eða allt upp í rúmlega þriggja kílómetra hæð. Aðstæður eru mjög frábrugðnar því sem finna má í öðrum víngerðarsvæðum Argentínu, jafnt varðandi jarðveg sem loftslag, miklar hitasveiflur eru innan sólarhringsins, dagar heitir, nætur svalar. Ekki síður er að finna mjög ólík skilyrði innan héraðsins (t.d. varðandi hæð yfir sjávarmáli) og þessi fjölbreyttu ræktunarskilyrði gera að verkum að Salta-vínin eru mjög fjölbreytt.

Vínrækt í Salta má rekja allt aftur til landnáms Spánverja á sautjándu öld og helstu ekrur héraðsins er að finna í Calchaquíes dölunum.

Salta hefur í gegnum tíðina verið þekktast fyrir hvítvín úr þrúgunni Torrontes og Zuccardi Series A er afbragðs gott dæmi um hvað býr í þessari þrúgu þegar hún er ræktuð í tæplega þrjú þúsund metra hæð. Fölgrænt á lit, tært, sætur, ferskur sítrus, ekki síst límóna og greip, en einnig gul melóna í bland við blómaangan, rósir. Brakandi ferskt en á sama tíma svolítið feitt og mjúkt, arómatískt út í gegn.

90%

3.289 krónur. Frábær kaup. Fordrykkur, sumarvín, með grillaðri bleikju og sítrónu.

  • 9
Deila.