Engiferkjúklingur með ananas og kúrbít

Þessi kjúklingaréttur er bragðsprengja undir miklum taílenskum áhrifum.

1 kjúklingur, bútaður í 8 bita

Kryddlögur

 • Safi úr 3 sítrónum
 • 5 sm engiferrót, rifin
 • 6 stór hvítlauksrif, pressuð
 • 2 rauðir chilibelgir, fræhreinsaðir og fínsaxaðir
 • 1 grænn chilibelgur, fræhreinsaður og fínsaxaður
 • 3 tsk hrásykur
 • 6 msk Akasíu hunang
 • 1 handfylli af kóríander, saxað
 • 2 dl ólívuolía

Bútið kjúklinginn í bita. Blandið öðrum hráefnum saman í skál og látið kjúklinginn liggja í kryddlegi í að minnsta kosti 2 klukkustundir.

Takið kjúklinginn úr leginum. Steikið á stórri pönnu í um 10 mínútur eða þar til hann hefur fengið á sig góðan lit. Bæta þá við kryddleginum á pönnuna og látið malla í rúmar fimm mínútur í viðbót.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið í eldfast mót. Setjið mótið í ofninn og eldið  í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Ananas og Kúrbítur

 • 1 ferskur ananas
 • 1 kúrbítur
 • 4 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 2 skalottulaukar, saxaðir
 • 3 sm engiferrót, rifin
 • 2 tsk létt sojasósa
 • 1 lime, safinn pressaður
 • (örlítil skvetta af fiskisósu, má sleppa)
 • 1 rauður chilibelgur, fræhreinsaður og saxaður

Hitið matskeið af olíu á wokpönnu eða stórri pönnu og svissið skalottulaukinn og hvítlaukinn í 2-3 mínútur. Setjið þá ananasbitana út á pönnuna og brúnið stutt í olíunni. Bætið engifer, soja, lime og chili út á (sem og fiskisósu ef þið notið hana) og veltið um í 2-3 mínútur Bætið þá kúrbítsstrimlunum saman við og mýkið.

Berið fram ásamt kjúklingnum, hrísgrjónum og salati.

Góður þýskur Riesling smellpassar með þessu t.d. Louis Guntrum Oppenheimer Sacktrager Spatlese eða Dr. Loosen Bernkasteler Lay Riesling.

Deila.