Baba Ghanoush

Baba Ghanoush er einn af algengustu réttum Mið-Austurlanda og fastur liður á borðum hvort sem er í t.d. Líbanon eða Ísrael. Þetta er eggaldinsmauk með ólívuolíu sem er gjarnan borðað með grilluðu pítabrauði.

  • 1 eggaldin
  • 1 dl Tahini
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 dl nýpressaður sítrónusafi
  • 1 msk mjög fínt söxuð steinselja
  • ½ tsk cummin
  • 1 msk ólívuolía
  • salt
  • steinlausar svartar ólívur til skrauts

Stingið gaffli í eggaldinið á nokkrum stöðum og grillið á grilli eða í ofni þar til að hýðið er orðið svart og aldinkjötið byrjar að verða mjúkt. Það gæti tekið um 10-15 mínútur og mikilvægt er að snúa eggaldininu oft á meðan.

Setjið í eldfast form og bakið við 175 gráðu hita í um 15 mínútur. Leyfið að kólna aðeins og hreinsið hýðið af.

Setjið í skál og maukið með gaffli. Bætið Tahini, pressuðum hvítlauk og sítrónusafa út í ásamt cummin og blandið vel saman. Bragðið til með salti og viðbótar Tahini eða sítrónusafa ef þarf.

Setjið maukið í fallega skál og sléttið úr því með skeið. Hellið ólívuolíu og sáldrið steinseljunni yfir. Raðið svörtum ólívum meðfram skálbrúninni.

Það er sniðugt að bera Hummus fram samhliða.

Deila.