Belgíski bjórinn

Flest ríki hafa sérstöðu á einhverju sviði matarmenningar. Merkasta framlag Belga á þessu sviði er vafalítið bjórinn. Hvergi í veröldinni er lagður jafnmikill metnaður í framleiðslu bjórs og ekkert ríki býður upp á jafnbreiða og fjölbreytta flóru af þessum útbreidda miði.
Belgar taka bjórinn sinn jafnhátíðlega og Frakkar vínið sitt og Þjóðverjar bílana sína. Gestir á kaffihúsum og krám gera til dæmis ófrávíkjanlega kröfu til þess að hver bjór sé borinn fram í sínu tiltekna glasi. Ólíkt öðrum ríkjum eru Belgar heldur ekki að binda sig við eina eða tvær bjórtegundir. Langflestir þýskir bjórar eru af pilsner-gerð, Írar drekka sk. „stout“ og hefðbundinn breskur bjór er af „ale“-gerð. Í Belgíu er hins vegar hægt að finna bjór fyrir hvert tækifæri. Neyslutölur sýna að Íslendingar eru mikið fyrir bjór en neysla okkar er fremur einhæf og byggist nær eingöngu á pilsner-bjórum.

Stór hluti neyslunnar í Belgíu er ljós bjór bruggaður úr hveiti og byggi. Í þeim flokki má annars vegar finna bjóra í pilsner-stílnum og hins vegar hvítan bjór sem á flæmsku er kallaður Vitbier en á þýsku Weissbier.

Pilsnerinn sem hér hefur verið fáanlegur heitir Stella Artois og er líklega almennt þekktasti bjór Belgíu og jafnframt sá er Belgar sjálfir drekka hvað mest af ásamt bjórnum Jupiler. Saga Stellu nær allt aftur til ársins 1366 er lítið brugghús, Der Horen (eða Hornið) var stofnað. Nafnið Artois var tekið upp árið 1717 er maður að nafni Sebastian Artois festi kaup á því. Þetta er sígildur lagerbjór, beiskur og laus við sætu.

Í allt öðrum stíl er hvítbjórinn Hooegarden. Hann hefur mjög sérstakt bragð enda er bætt út í hann appelsínuberki og kóríander. Hooegarden var upphaflega bruggaður af munkum í samnefndum bæ og hafa vinsældir hans stöðugt farið vaxandi í Evrópu á síðastliðnum áratugum. Hann hefur mikinn karakter, er léttur og ferskur og þykir henta vel í hitum.

Það eru ekki síst munkar er sett hafa mark sitt á belgísku bjórframleiðsluna. Í Frakklandi, Ítalíu og Spáni hafa munkar öldum saman ræktað vín en í Belgíu hefur loftslag sett munkunum ákveðin takmörk. Þeir fóru því að brugga bjór í stað þess að rækta vín og eru margir af þekktustu bjórum landsins kenndir við ákveðinn klaustur. Mörg klaustur tilheyra hinni svokölluðu Trappister-reglu og fimm þeirra brugga enn sinn eigin bjór, sk. trappista-bjóra. Eru þeir Chimay, Orval, Westvleteren, Westmalle og Rochefort. Önnur klaustur hafa hins vegar selt réttinn til bjórframleiðslunnar og eru slíkir bjórar gjarnan nefndir klaustur-bjórar. Þekktastur þeirra er Leffe, sem nú er í reynslusölu hérlendis. Leffe Blonde er þægilegur bjór í ale-stíl, ekki áberandi sætur og með þægilegum maltkeim.

Loks mætti nefna sk. lambic-bjóra er kenndir eru við bæinn Lambeek. Það eru hveitibjórar er byggjast á sjálfbærri gerjun. Engu geri er bætt við hveitið, heldur gluggar opnaðir og náttúruleg ger látin streyma inn yfir nóttina.

Þetta eru þyngstu og flóknustu bjórar Belga og gjarnan látnir þroskast á tunnum í nokkra mánuði eða jafnvel ár.

Deila.