Pasta með grænmeti að hætti Valpolicella

 

Þennan rétt fékk ég fyrst í hádegisverði á góðu veitingahúsi á Valpolicella-svæðinu, skammt frá borginni Verona á Ítalíu. Hann er einfaldur en mjög góður. Ítalska matargerðin er oft ekki flókin á móti kemur að mikilvægt er að hráefnin séu fyrsta flokks.

Það sem þarf í þessa uppskrift er:

• 1 stk. kúrbítur (zucchini)
• 4-5 væn hvítlauksrif
• 1 box af kirsuberjatómötum
• 500 g pasta, t.d. Tagliatelle
• eitt búnt steinselja – helst flatlaufa
• Parmigiano-ostur
• góð ólífuolía
• salt og pipar

Aðferð:

Saxið hvítlaukin, skerið kúrbítinn í litla teninga og sneiðið kirsuberjatómatana í tvennt.

Hitið olíu á pönnu og svissið hvítlaukinn í smástund. Bætið kúrbítnum út í og loks tómötunum 2-3 mínútum síðar. (Hér má krydda með 1 tsk af óreganó og 1 tsk af salvíu ef vill).

Kúrbíturinn á að verða mjúkur en án þess að maukast. Saltið létt og piprið. Saxið loks steinseljuna og bætið út í.

Hitið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Blandið grænmetinu og pasta vel saman og bætið við smá hágæða ólífuolíu.

Berið fram með niðurrifnum Parmigiano (Parmesan) og gott getur verið að hafa piparkvörnina við hendina.

Vínið með:

Þessi réttur nýtur sín mjög vel með mildu ítölsku víni og af augljósum ástæðum hef ég alltaf tengt hann við Valpolicella. Ég mæli sérstaklega með Valpolicella-vínunum frá Bertani eða Tenuta San Antonio. Yndisleg vín ekki síst með sumarlegum réttum sem þessum.

 

Deila.