Orange

Í gegnum glerhurðina sem leiðir úr matsalnum inn í eldhúsið  má sjá mann íklæddan hvítum sloppi með skíðagleraugu og risavaxna slaufu burðast með þunga kúta.  Sjá má gesti gauta spurulum augum hvor til annars? Hvar erum við eiginlega stödd? Er þetta eldhús eða er þetta tilraunastofa?

Svarið er líklega einhvers staðar þarna á milli. Orange er staður sem tekur sig á köflum mátulega hátíðlega, það er ekki bara boðið upp á mat og drykk heldur einnig frumlega sviðsmynd og leiksýningu.

Orange er staðsettur á Geirsgötu 9 við Reykjavíkurhöfn í húsinu þar sem áður voru Tveir fiskar, litríkur og hressilegur.  Staðurinn er sköpunarverk Þórarins Eggertssonar sem starfað hefur í Brussel jafnt sem á íslenskum veitingastöðum á borð við Silfur.

Strax á barnum má greina að maður er kominn inn á stað þar sem léttleikinn er ríkjandi, andrúmsloftið eins og á diskóteki á áttunda áratugnum. Maður bíður bara eftir að John Travolta birtist í hvítu jakkafötunum. Á stangli mátti sjá appelsínugular blöðrur með litlar fötur hangandi niður úr sér eins og litlir loftbelgir. Ljósin í barskápunum skipta reglulega um lit og á borðinu er heljarinnar krapvél sem notuð er í kokkteilgerðina. Kokkteillistinn raunar einstaklega flottur og frumlegur og í loftinu hangir þung lykt af myntu sem bendir til fjöldaframleiðslu á Mojito.

Eina sem við gátum kvartað yfir var að þurfa að sitja og dást að þessu öllu án þess að neinn sýndi áhuga á að afgreiða okkur í um tíu mínútur og stefnan því tekin beint á matsalinn.

Við ákváðum að fá okkur smökkunarseðil hússins eða “Let’s go crazy Menu” eins og hann er nefndur. Máltíðin hófst á lystauka og þá kom í ljós tilgangurinn með appelsínugulu blöðrunum sem við höfðum veitt athygli á barnum. Ein slík var færð yfir borðið og í litlu körfunni voru bitar af skarkola djúpsteiktum í tempuradeigi.

Fyrsti eiginlegi rétturinn var humar með ætiþistlasúpu og graskersteningum. Humarinn var bragðmikill og grillaður og súpan, sem hellt var yfir diskinn úr mjólkurfernu bragðmikill og góð. Stökkur bakstur fullkomnaði heildina.

Nautalundir voru meyrar og fullkomnar bornar fram með blómkálsmauki og villisveppum á svartri flís. Flott en kannski ekki rosalega praktískt – soðsósan fór  að renna yfir á borðið af flatri flísinni um leið og hún var lögð á borðið.

Þegar kom að fyrri eftirréttinum birtist maðurinn í sloppnum með brúsana sína sem úr rauk ískalt köfnunarefnið og upp kom freðið mangókrap, stökkt og gott, hæfilega sætt, sem …jú…bókstaflega bráðnaði uppí manni. Í lokin hefðbundnari eftirréttur – ís og kaka – sem ekki olli vonbrigðum fremur en annað.

Það er óneitanlega upplifun að borða á Orange – og eflaust sækja gestir í “sjóvið” ekki síður en vandaðan matinn.  Öll umgjörð staðarins er vönduð og frumleg og þjónustan var lipur og þægileg að undanskilinni biðinni löngu í upphafi.

 

 

Deila.