Indland á Íslandi í fimmtán ár

Fyrsta október 1994 opnaði nýr indverskur veitingastaður dyr sínar á Hverfisgötunni undir heitinu Austur-Indíafjelagið. Fyrr um sumarið sama ár höfðu hjónin Gunnar Gunnarsson og Chandrika Gunnarsson keypt veitingastaðinn Taj Mahal sem rekinn hafði verið í þessu sama húsnæði og nú var komið að því að veitingastaðurinn yrði starfræktur undir þeirra formerkjum. Þetta var vissulega nokkuð áræðin ákvörðun. Hverfisgatan var ekki þá og er ekki nú kjörstaður fyrir veitingahús, hvað þá indverskan stað, með ekkert voðalega flottum innréttingum þar sem steinsteypt kínversk ljón gæta útidyranna, arfleifð fyrri tíma veitingarekstrar í húsinu.

Ekki voru heldur allir í kringum þau á því að nafnið sem þau völdu á staðinn væri rétt. Austur-Indíafjelagið var talið of óvenjulegt og óþjált. Skynsamlegra hefði verið að nefna staðinn eitthvað á borð við Karrýhöllina, Bombay Palace eða hreinlega halda nafninu Taj Mahal. Þau vildu hins vegar íslenskt nafn sem hefði einhverja tengingu við Indland.

Chandrika og Gunnar kynntust í háskóla þegar þau voru bæði í háskólanámi í Bandaríkjunum. Þegar þau tóku ákvörðun um að flytja til Íslands var stóra spurningin auðvitað sú hvað þau ættu að gera. Niðurstaðan varð veitingarekstur en segja má að með því hafi Chandrika flutt hluta heimahaga sinna til Íslands, skapað sitt litla Indland við Hverfisgötuna.

Allt frá upphafi hefur gífurlegur metnaður einkennt veitingareksturinn á Austur-Indíafjelaginu. Hráefni á borð við krydd og kaffi hafa verið flutt inn beint frá Indlandi, en fjölskylda Chandrika á plantekrur í Karnataka-héraði í Suður-Indlandi. Til að byrja með stóðu þau sjálf vaktina í eldhúsinu og voru allt í öllu. Smám saman hefur hópurinn stækkað og alla tíð hefur matreiðslumannateymið í eldhúsinu verið indverskt. Chandrika segir það vera lykilatriði enda sé mikill menningarmunur á þeirri matreiðslu sem Indverjar læri og iðki og þeirri vestrænu sem íslenskir matreiðslumenn leggi til grundvallar.

Vinsældirnar létu ekki á sér standa og með árunum hefur byggst upp stór og mikill hópur fastakúnna sem kemur aftur, og aftur og aftur á Austur-Indía. Til viðbótar móðurskipinu á Hverfisgötu hafa þau hjón smám saman opnað þrjá nýja veitingastaði undir nafninu Austurlandahraðlestin, á Hverfisgötu, í Kópavogi og Spönginni, þar sem hægt er að fá einfaldari réttu og rétti til að taka með heim.

Orðstír staðarins hefur líka borist víða. Það vakti mikla athygli þegar leikarinn Harrison Ford, sem reglulega hefur snætt á veitingastaðnum, lýsti því yfir í Sunday Times að þetta væri besti indverski staður sem hann hefði borðað á. Nú nýlega útnefndi lúxusrisinn Louis Vuitton Austur-Indíafjelagið sömuleiðis sem einn af bestu veitingastöðum Norðurlandanna í ferðahandbók sinni.

Þau Chandrika og Gunnar segja að útlendingar sem hingað komi í lengri og skemmri tíma snæði oft á Austur-Indía. Nefna þau sem dæmi að þegar hljómsveitinn Metallica hélt tónleika hér á landi fyrir nokkru hafi hljómsveitarmeðlimirnir komið í mat hvert einasta kvöld og það sama megi segja um hópinn sem vann að gerð Clint Eastwood-myndarinnar Flag of our Fathers. Hins vegar sé ekki mikið um að hin hefðbundna túristatraffík rati inn á staðinn, langstærsti hluti gestanna árið um kring séu Íslendingar.

Og viðhorf Íslendinga til indverskrar matargerðar hafa tekið stakkaskiptum á þessum fimmtán árum, segir Chandrika. „Þegar við byrjuðum vildu allir Tandoori-kjúkling og Tikka Masala. Smekkur Íslendinga hefur hins vegar þróast mikið og nú hikar fólk ekki við að panta rétti sem maður sér yfirleitt ekki á indverskum veitingahúsum. Við höfum frá upphafi viljað þróa eldhúsið og reyna nýja hluti þar sem indverskar hefðir og íslensk hráefni mætast. Þessa stundina erum við að þróa fram rétt úr lambaskönkum sem lofar góðu og kemur væntanlega á matseðilinn síðar í vetur.

Ég tók síðast viðtal við Chandriku í nóvember 1996 sem lesa má með því að smella hér en forvitnilegt er að sjá hversu mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan.

Þegar þau eru spurð hvað standi upp úr í þeirra huga á þessum fimmtán nefna þau bæði að það hafi verið sú stund sem þau áttuðu sig á því, sitt í hvoru lagi að þetta dæmi væri að ganga upp hjá þeim. Fólki líkaði við staðinn. „Enn í dag er hver einasti ánægður viðskiptavinur það sem stendur upp úr,“ segir Gunnar. „Lykillinn að velgengni okkar hefur legið í því að leggja allt á okkur til að gera viðskiptavininn ánægðan með góðum mat og góðri þjónustu og það er ekkert sem gerir mann eins stoltan og ánægðan og þegar gestir þakka manni fyrir og veita einlægt hrós. Fólki standa fjölmargir kostir til boða þegar veitingahús eru annars vegar og það hlýjar manni um hjartaræturnar þegar það tekur ákvörðun um að koma til okkar. „

Reksturinn hefur ekki alltaf verið dans á rósum og þau segja að oft hafi verið basl að halda uppi metnaðarfullum veitingarekstri. Chandrika segir það mikinn misskilning að veitingarekstur sé einhver „glamúr“, þetta sé fyrst og fremst mikil vinna sem verði að tengjast jafnmikilli ástríðu. „Við höfum frá reynt að flýta okkur hægt, taka eitt skref í einu og fara ekki framúr okkur sjálfum.“

Það sést kannski best á því að á þessum fimmtán árum hefur staðurinn einungis verið tekinn í gegn útlitslega í eitt skipti. Fyrir um níu árum var Austur-Indíafjelaginu lokað á sunnudegi og opnað aftur fyrir næstu helgi með nýjum gólfefnum, skilrúmum og húsgögnum. Þau hjónin biðu að sjálfsögðu spennt og nokkuð kvíðin eftir því að sjá viðbrögð gesta. Fyrsti gesturinn sem kom inn var eins konar fastagestur. Hann leit í kringum sig í smástund, gekk þá upp að Gunnari, tók í hendina á honum og sagði: „Til hamingju með að rústa þessum veitingastað fullkomlega.“ Að því búnu gekk hann út og eftir stóðu þau Chandrika og Gunnar í sjokki.

Gunnar segir að þessi gestir hafi komið reglulega aftur síðar en í byrjun lýst því yfir að hann myndi ekki líta á neitt annað en matinn.

Menn geta nefnilega haft mismunandi skoðun á hlutum á borð við innréttingar en þeir eru fáir sem hafa hallmælt matnum á Austur-Indíafjelaginu. Nú í október verður sérstakur matseðill í boði þar sem bestu réttir síðustu fimmtán ára verða í boði en  dómnefndin eru þeir sem snætt hafa á staðnum á þessum fimmtán árum. Þeir réttir sem notið hafa hvað mestra vinsælda eru á seðlinum.

Deila.