Er bjór og ostur málið?

Rauðvín og ostar er samsetning sem nær allir kannast við og rauðvín er það fyrsta sem mörgum dettur í hug þegar ostar eru nefndar. Samt er það svo að með mörgum ostum eiga hvítvín betur við en rauðvín. Og svo er það bjórin. Þótt að sú pörun hljómi ólíklega í eyrum margra þá er hægt að færa sterk rök fyrir því að bjór og ostar eigi ef eitthvað er oft betur saman en vín og ostar.

Þegar maður fer að velta þessu fyrir sér hljómar þetta hins vegar ekki svo ósennilega. Bæði bjórin og osturinn eiga rætur sínar að rekja til sömu akranna. Sumt fer í bjórinn en annað í beljuna. Og í báðum tilvikum þarf að gerja hráefnið áður en það nær sinni endanlegu mynd.

Í Búrinu í Nóatúni er boðið upp á osta- og bjórkvöld þar sem þau Eirný Sigurðardóttir í Búrinu og Valgeir Valgeirsson bruggmeistari í Ölvisholti para saman osta og vín á ótrúlegan hátt. Það var afskaplega fróðlegt og ekki síst skemmtilegt að verja kvöldstund í þessar pælingar enda eru þau Eirný og Valgeir bæði snillingar á sínu sviði.

Ekki spillir fyrir að bjórarnir frá Ölvisholti eru á algjörum heimsmælikvarða og þurftu ekkert að skammast sín við hliðina á þessum fínu, evrópsku ostum.

Við byrjuðum á því að smakka Freyju, sem er „kvenlegasti“ bjórinn þeirra í Ölvisholti, bruggaður í anda belgísku Witbier eða hveitibjóranna, bragðbættur með appelsínu og kóríander. Hann reyndist vera mjög ostvænn og small að jafnt Brie Maxim’s de Paris og Chevre Cendre, geitaosti frá Loire. Hvítmygluostar á borð við Brie eru erfiðir þegar vínið er annars vegar en Brie og Freyja voru eins og samrýmd hjón. Sömuleiðis dró Freyja vel fram mýktina í geitaostinum og hann á móti ýtti undir ferskleikann í bjórnum.

Premium lager bjórinn skjálfti þurfti að takast á við Grana Padano og Pecorinu il Martano Nero frá Ítalíu. Hann komst þokkalega frá því en stundum gætti ákveðin ójafnvægis. Að mínu mati er Skjálfti meira bjór sem kallar á matarmikla kjötrétti. (Schweinebraten oder Wurst jemand?) og jafnt Pecorino sem Grana eru mjög vínvænir ostar. Þetta var sem sagt samsetning sem gekk upp en ég var ekki reiðubúinn að fallast á að bjórinn hefði vinning á víninu.

Móri var næstur en hann flokkast sem rautt öl og einn besti bjór sem bruggaður hefur verið hér á landi. Á veitingahúsinu Dill hefur honum t.d. stundum verið skotið inn á milli vínanna í matseðlinum og hér þurfti hann að mæta hinum norska Jarlsberg og hollenska Ouwe Jongens, sem hann gerði af stakri prýði. Eðlilegar og rökréttar samsetningar og dró sá síðarnefndi fram súkkulaðitóna í bjórnum sem ég hafði ekki annars fundið fyrir að væru til staðar.

Hinn kolsvarti Lava-bjór var síðastur en hann er mikill um sig, 9,4% að styrk úr dökkristuðu malti. Svakalegur bjór sem fékk það erfiða verkefni að takast á við grænmygluostinn Bleu d’Auvergne. Fæst vín ráða við slíka osta og best er að para þeim við vönduð sætvín á borð við Sauternes frá Bordeaux, Selection des Grand Nobles frá Alsace eða jafnvel Vintage Port frá Portúgal. Lavan var hins vegar ekki í vandræðum með grænmygluna og osturinn og bjórinn ýttu á frábæran hátt undir sérkenni hvor annars. Að sama skapi voru Lava og Saint-Nectare, annar kúamjólkurostur frá Auverne, afskaplega samrýmdir.

Deila.