Coto Vintage 2005

Coto Vintage 2005 er eitt þeirra vína sem hlaut Gyllta glasið á dögunum í smökkun Vínþjónasamtaka Íslands en að þessu sinni voru það vín undir 2000 krónum sem tekin voru til smökkunar.

Þetta vín er raunar mjög sérstakt eða kannski öllu heldur umbúðirnar. Þetta mun vera fyrsta Rioja-vínið sem sett er á flöskur og lokað með skrúfutappa. Það var gert í fyrstu fyrir sænska veitingahúsamarkaðinn en hefur einnig ratað hingað til lands. Skrúfutapparnir eru að vinna ný vígi á hverjum degi í vínheiminum enda þykja þeir ekki bara þægilegir heldur henta mjög vel fyrir vín sem á að drekka ung og því mikilvægt að viðhalda ferskleika þeirar.

Coto Vintage 2005 er besti árgangurinn af þessu víni sem ég hef smakkað. Það byrjar sterkt með kröftugri amerískri eik, töluvert af vanillu og súkkulaði í nefinu, undir liggur svo þykkur dökkur berjaávöxtur sem smám saman tekur völdin af eikinni í munni. Mjúkt með mildum tannínum og millilengd.

Kostar 1.798 krónur og gefur mikið fyrir peninginn. Mjög góð kaup. Fær fjórðu stjörnuna fyrir hlutfall verðs og gæða.

 

Deila.