Vín vikunnar

Við kíktum á fimm ný vín í síðustu viku, þrjú rauð og tvö hvít, frá Ítalíu, Spáni, Argentínu og Frakklandi.

Þar berst fyrst að nefna hið suður-ítalska Feudi di San Marzano Negroamaro. Þetta er rauðvín frá Púglía frá mjög forvitnilegu vínhúsi og fyrsta vínið þaðan, sem við kíkjum á. Það er raunar athyglisvert hvað Suður-Ítalía er að koma inn sterk núna, þegar allir eru að leita að góðum vínum fyrir hófstillt verð.

Argentína er sömuleiðis gjöful uppspretta góðra vína á góðu verði og er Trivento Cabernet Sauvignon Reserve 2007 dæmi um það.

Spænska vínið kemur frá Katalóníu og frá þeim framleiðanda sem mest hefur gert til að koma Katalóníu á vínkortið, Miguel Torres í Vilafranca del Pénedes. Coronas 2006 er Tempranillo-vín með smá Cabernet Sauvignon-ívafi sem stendur fyllilega fyrir sínu.

Hvítvínin voru tvö og mjög ólík. Annars vegar létt og ferskt hvítvín frá Toskana á Ítalíu, Banfi Le Rime 2008 og hins vegar yndislegt Búrgundarvín úr Chardonnay-þrúgunni, Joseph Drouhin Pouilly Fuissé 2007.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau.

Myndskreyting vikunnar er frá vínekrum Trivento í Mendoza í Argentínu með uppskeruna í fullum gangi.

Deila.