Heitt í Hollandi

Holland er þekkt fyrir margt og má þar nefna blóm, bjór og osta eins og Gouda og Edam eða þá genever og líkjöra. Hollenska matargerðin er hins vegar ekki þekkt út fyrir landsteinana og það ekki að ástæðulausu. Hún er alla jafna einföld og samanstendur mikið af súpum og heimilisréttum á borð við kjötbita með kartöflum og soðnu grænmeti. Eða þá Hutspot og Stamppot, sem eru eins konar pottréttir þar sem stappaðar kartöflur eru uppistaðan, í fyrra tilvikinu ásamt gulrótum en í því seinna með káli og rósakáli.

Það má færa rök fyrir því að Kalvin hafi verið meiri áhrifavaldur í hollenskri matargerð en til dæmis Escoffier.

Rétt eins og í Belgíu og Norður-Frakklandi er majonnes vinsælt með flestu og sömuleiðis sinnep.

Það vakti nokkra athygli fyrr á þessu ári er ástralskir hermenn í Afganistan gerðu hálfgerða uppreisn vegna þess að þeim var gert að borða hollenskan mat. Málið kom meira að segja til kasta ástralska þingsins og varð niðurstaðan sú að tíu ástralskir kokkar voru sendir til Afganistan til að róa hermennina.

Það er þó ekki þar með sagt að ekki sé hægt að finna góða veitingastaði í Hollandi. Staðir þar sem boðið er upp á framandi matargerð eru til dæmis algengir og bera vitni annars vegar fyrrum nýlenduveldi Hollendinga (sem réðu meðal annars yfir Indónesíu um tíma) og hins vegar þeim mikla fjölda innflytjenda, ekki síst múslima, sem flust hafa til Hollands á síðustu áratugum.

Nýlendurnar og fyrsta stórfyrirtæki heimsins, Austur-Indíafjelagið, hafa reyndar haft margvísleg áhrif á hollenska framleiðslu, líkt og lesa má um hér.

Í Amsterdam, sem er líklega vinsælasti áningarstaður Íslendinga í Hollandi, er að finna marga ágæta veitingastaði, jafnt klassíska sem nútímalega þar sem ungir kokkar eru á harðahlaupum frá hinum kalvínísku hefðum.

Vilji menn kynnast vandaðri og ný-klassískri hollenskri matargerð með örlitlu frönsku ívafi er D’Vijff Vlieghen eða Flugurnar fimm við götuna Spuitstraat í gamla miðbænum mjög góður kostur. Gengið er inn úr húsasundi í gamla, fallega byggingu. Staðurinn sjálfur teygir sig raunar yfir fimm hús við síkin og hefur hver salur sitt þema, sumir með Rembrandt-myndum. Staðurinn hefur yfir sér aldagamalt yfirbragð en er raunar ekki eldri en 1939.

Matreiðslumaðurinn René Kramer er einn af helstu forsvarsmönnum ný-hollenska eldhússins þar sem sígildir hollenskir réttir og hráefni eru notuð á nútímalegan hátt, matargerðin raunar ef eitthvað er frekar frönsk en hollensk. Við reyndum m.a. annars andarpaté, héra og útgáfu af hinum sígilda eftirrétt Jan in de Zak, sem er hollenskur rúsínubúðingur. Allt stóð þetta ágætlega undir væntingum, staðurinn sjálfur afskaplega fallegur, vínlistinn mjög góður og þjónustan ágæt.

Borgin Rotterdam er um flest andstaða Amsterdam. Nútímaleg borg og miðstöð hollenska viðskiptalífsins, þökk sé einni stærstu höfn í heimi. Þótt stórfenglegar byggingar og mannvirki á borð við Erasmus-brúna gefi Rotterdam nútímalegt yfirbragð má þar enn komast í andrúmsloft liðinna tíma.

Hotel New York sem opnaði 1993 er til húsa í hinum gömlu höfuðstöðvum skipafélagsins Holland Amerika Lijn sem hélt uppi farþegasiglingum á milli Rotterdam og New York. Þótt hótelið sé ekki gamalt fangar það andrúmsloft farþegasiglinga síðustu aldar þegar ferðir á milli landa voru umvafnar mun meiri rómantík en nú er raunin.

Veitingastaður hótelsins er stórt og mikið brasserie sem iðar af lífi. Þar er hægt að gæða sér á sjávarréttum af ýmsu tagi, skelfiskur í fjölmörgum útgáfur er ráðandi á matseðlinum, þótt auðvitað sé hægt að fá kjötrétti líka, og verðlagið er bara alveg þolanlegt, jafnvel fyrir íslenska krónueigendur.

Það virðist raunar sem andrúmsloft fyrri hluta síðustu aldar sé í mikilli tísku í Hollandi þessa dagana. Heitasti barinn í Amsterdam heitir Door 74 og er þemabar í anda bannáranna í Bandaríkjunum. Þetta er ekki bar heldur „speakeasy“ þar sem engin skilti eða merkingar gefa til kynna hvað sé að finna á bak við hurðina. Þegar gengið er fram hjá mætti helst halda að húsið væri tómt og í niðurníðslu. Þegar inn er komið birtist hins vegar nýr heimur þar sem hipp og kúl Amsterdam-búar skeggræða yfir klassískum kokkteilum.

Einungis 42 gestum er hleypt inn í einu og er mælt með því að menn láti vita af sér fyrirfram með því að hringja eða senda textaskilaboð á +31 (0)6 3404 5122 og er þá látið vita til baka hvort hægt sé að taka við fleiri gestum.

Í Rotterdam er það hins vegar Level sem er heitasti barinn, afskaplega svalur og nútímalegur kokkteilbar þar sem hægt er að snæða smárétti auk þess að velja úr einhverjum besta kokkteillista Hollands.

Deila.