Ís með sérrírúsínum

Það þarf ekki alltaf að hafa mikið fyrir eftirréttinum. Stundum hefur maður ekki tíma eða orku og þá er gott að grípa til uppskrifta eins og þessarar hér. Raunar er þetta það góður réttur að maður gerir hann stundum þó að maður sé ekkert að flýta sér.

Best er auðvitað að taka hana aðeins lengra og gera heimatilbúinn ís, sem er alltaf bestur. Og uppskriftin að einum þeim allra besta er þessi hér. Það er hins vegar líka hægt að kaupa einhvern góðan vanilluís út í búð.

Það eru hins vegar rúsínurnar sem eru trixið. Um 3-400 grömm af rúsínum eru settar í skál og 2 dl af dísætu sérríi bætt saman við. Rúsínurnar þurfa að liggja nokkra stund í sérríinu, helst yfir nótt. Þær sjúga í sig vökvann og bólgna aðeins út. Rúsínurnar og sérríið er síðan sett út í skál ásamt ískúlunum. Það þarf ekki meir.

Mikilvægt er að nota þykkt og dökkt sérrí úr Pedro Ximenes-þrúgunni. Eitt slíkt fæst í vínbúðunum. Það heitir Nectar, er framleitt af Gonzalez-Byass og er selt í hálfflöskum.

Deila.