Lambafile að hætti Suður-Frakka

Hér er það sinnep og estragon sem gefa bragðið í kryddlöginn sem við látum kjötið liggja í áður en við grillum og sinnepsfræin, og koníak eru punkturinn yfir i-ið. Allra best er að fá lambafilé á beini. Biðjið kjötborðið ykkar um að vinna lambahrygg með þeim hætti. Lundirnar sem þá fylgja er svo gott að grilla með.

  • Lambafile
  • 1 dl Dijon-sinnep
  • 1 dl ólífuolía
  • 4 msk koníak (gott viský gengur líka)
  • 2 msk vínedik
  • 2 tsk sinnepsfræ
  • lúka af söxuðu fersku estragon
  • pipar úr kvörn

Pískið saman olíu, sinnep, koníak, vínedik, sinnepsfræ og pipar. Blandið estragoninu saman við. Geymið helminginn til að nota sem sósu og leyfið kjötinu að marínerast í leginum í að minnsta kosti klukkustund, helst lengur. Ef þið viljið meiri sósu með er bara að tvöfalda hlutföllinn.

Grilið í 4-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til kjötið hefur náð þeirri steikingu sem þið viljið. Athugið að þykktin á file-bitunum spilar inní og að kjötið þarf minni tíma ef beinin eru ekki með. Saltið létt.

Berið fram með grilluðu eða ofnbökuðu grænmeti, t.d. kúrbít, squash og eggaldin ásamt sósunni.

Að sjálfsögðu gott suður-franskt rauðvín með.

Deila.