Vinsælasti Ítalinn

Ítölsk vín hafa löngum notið mikillar hylli hér á landi rétt eins og annars staðar í heiminum. Síðustu árin hafa vinsælustu ítölsku vínin komið frá norðurhluta landsins og enginn selur fleiri lítra af ítölskum vínum á Íslandi en Pasqua-fjölskyldan frá Verona.

Víngerð Pasqua er að finna rétt norður af borginni Verona. Maður er eiginlega ekki kominn út fyrir borgarmörkin þegar komið er út á fyrstu vínekrurnar og maður þarf að fara að leita að réttu agnarsmáu hliðargötunni til að rata á réttan stað. Samt er nýja víngerðin sem opnuð var fyrir nokkrum árum engin smásmíði. Pasqua er enda enginn smáframleiðandi, þetta er eitt af tíu stærstu vínfyrirtækjum Ítalíu sem enn eru í fjölskyldueigu.

Fratelli Pasqua var stofnað árið 1925 og eru bræðurnir sem halda utan um stjórnvölinn, þeir Carlo, Giorgio og Umberto, önnur kynslóðin frá stofnun þótt sú þriðja sé einnig farin að láta að sér kveða og mun meðal annars stjórna nýstofnuðu fyrirtæki Pasqua í Bandaríkjunum.

Auk þess að framleiða vín í Veneto, sem er helsta víngerðarsvæði Ítalíu, gerir fjölskyldan töluvert af vínum frá Púglía (en þar eru raunar rætur Pasqua) og Montepulciano auk þess að eiga í samstarfi við Fazio-fjölskylduna á Sikiley, sem á þar um 600 hektara af ekrum.

Alls á Pasqua um 100 hektara af ekrum í Veneto en þekktustu víngerðarsvæðin þar eru Valpolicella, Soave og Bardolino, auk þess að vera í samstarfi við önnur vínhús um framleiðslu og dreifingu. Fyrirtækið heldur hins vegar utan um framleiðslu á vínum af hátt í þrjú þúsund hektörum.

Carlo Pasqua segir að um 80% af framleiðslunni sé frá Veneto og að það geri fyrirtækinu kleift að „keppa á tveimur leikborðum“ eins og hann orðar það. „Sjálfur er ég hrifnastur af fínleika Veneto-vínanna,“ segir hann. „Suðrið hefur hins vegar kraftinn sem þarf til að keppa við vín Nýja heimsins.“

Við smökkum okkur í gegn flest helstu vín fyrirtækisins og breiddin er vissulega mikil. Frá fínlegum Chardonnay frá Veneto yfir í sólríkan Chardonnay-Grillo frá Sikiley. Og frá mildum Valpolicella-vínum í yfir í súkkulaðihúðaðan Passimento, þéttan Ripasso og eikaðan og sultaðan Amarone 2007. Að ekki sé minnst á hin öflugu Masseria Surani Primitivo-vín frá Púglíu. Hvað mig varðar var það hins vegar óvenjulegt Veneto-vín sem stóð upp úr í smökkuninni – Picare 2006. Hrikalega flott vín þar sem Veneto-þrúgunni Corvina er blandað saman við Bordeaux-þrúgurnar Cabernet Sauvignon og Merlot.

 

Deila.